Samþætt sjón- og heyrnarskerðing (S.S.H.S.) er mjög víðtækt hugtak og orðið skerðing í þessu samhengi þýðir ekki endilega að einstaklingur hafi enga sjón eða enga heyrn, heldur að þessi skynfæri séu skert. Þessi samþætta skerðing er ekki bara eins og einni skerðingu sé bætt við aðra heldur myndast að auki alveg nýjar hindranir þegar þessar tvær fara saman, og vegna þessara margföldunaráhrifa er samþætt sjón- og heyrnarskerðing skilgreind sem sértæk fötlun.

Fólk með skerta heyrn bætir sér það gjarnan upp með varalestri í samskiptum við heyrandi og mörgum tekst svo vel upp að auðvelt er fyrir viðmælendur að gleyma því að ekki sé hægt að treysta á hljóð í þeim samskiptum. Varalestur krefst þó gífurlegrar einbeitingar og tekur virkilega mikið á, þannig að fólk sem les af vörum verður oft uppgefið eftir ekki mjög langan tíma.

Þú getur prófað þetta með því að skrifa niður einhver 10 sæmilega algeng orð. Segðu þau hljóðlaust en á eins eðlilegan hátt og þú getur við næsta mann og athugaðu hversu mörg orð hann eða hún skilur.

Hjónin Emilee og Jonathan Segura hafa sett nokkur myndbönd á netið um samskipti heyrnarskertra og heyrandi. Emilee er með kuðungsígræðslu í öðru eyranu en heyrir ekkert ef hún tekur af sér heyrnartækið. Jonathan hefur fulla heyrn en hefur verið að læra táknmál sem hann notar til stuðnings í samskiptum. Hér er dæmi um mis erfið orðasambönd og samhengi þess sem sagt er, í „varalestrarleiknum“:

 

Um 30% skilar sér til varalesarans, hitt þarf að ráðast út frá samhenginu

Margir halda að sá sem er fær í varalestri skilji allt sem sagt er, en svo er ekki raunin. Rannsóknir sýna að í flestum tilfellum þá skilur varalesarinn bara um 30% af því sem sagt er. Eftirfarandi frásögn gæti heyrst í venjulegum samskiptum og er án óþarfa málalenginga:

Veðrið er búið að vera svo rosalega gott í dag að ég ákvað að fara með börnin í sund. Sundlaugin var svo troðfull af fólki að við komumst ekki að í vaðlauginni og Katrín þurfti að sitja á bakkanum og bara með annan fótinn ofan í vatninu.

Séu 70% textans og nokkur lykilorð tekin burt þá gæti útkoman verið eftirfarandi:

Veðrið rosalega dag ég börnin. Sundlaugin fólki vaðlauginni Katrín sitja bakkanum fótinn vatninu.

Einmitt vegna þess hve mikið tapast er mikilvægt að koma sér sem fyrst að efninu þegar talað er við einhvern sem les af vörum því það er erfitt og þreytandi fyrir báða aðila ef varalesarinn þarf sífellt að biðja viðmælandann um að endurtaka sig aftur og aftur. Dæmi um ómarkvisst svar við spurningu um hvort viðkomandi þurfi að fara í búð á eftir:

„Jaaaa kannski því að ég er að spá í að hafa pasta og ég er ekki viss hvaða pastasósu ég ætti samt að hafa með en ég hef heyrt að sósan í Hagkaup sé mjög góð en hinsvegar að þá er hún tvöfalt dýrari en í Bónus, er samt ekki viss hvort að ég hafi pasta í kvöld eða kannski bara pylsur.“ 

Reyndu að ímynda þér að þú sért hér að lesa af vörum og sért að reyna að finna út frá 30% svarsins hvort viðkomandi ætli í búð eða ekki ( eða Nei).

 

Góð ráð í samskiptum við fólk sem les af vörum

Til að auðvelda öllum samskiptin er ýmislegt sem þarft er að hafa í huga.

  • Andlitið þarf að snúa að þeim sem þú ert að tala við og hendur/fingur mega ekki vera fyrir munninum. Í næstu samskiptum sem þú átt við annan einstakling, sama hvern, prófaðu þá að horfa eftir því hversu oft viðkomandi lítur til hliðar, upp eða niður, hversu oft hann/hún setur hönd upp að munni eða breytir um fas þegar hann/hún er að lýsa því sem aðrir sögðu. Og fylgstu með því hversu oft þér hættir til að gera það sama. Þetta er allt algengt og eðlilegt í samskiptum við fólk með góða sjón og heyrn en gerir fólki sem les af vörum mjög erfitt fyrir.
  • Vara-/munnhreyfingar þurfa að vera skýrar en samt eðlilegar. Ekki muldra né heldur fara í það að ýkja varahreyfingar. Fólk með yfirvaraskegg þarf sérstaklega að gæta sín, og ef viðkomandi getur notað lit á varirnar til að gera þær meira áberandi þá hjálpar það mikið.
  • Gættu þess að tala ekki of hratt og forðastu að blanda tungumálum saman (reyndu t.d. að sleppa enskuslettum eins og hægt er).  Varalesarinn þarf að ráða í þær munnhreyfingar sem hann/hún/hán sér og para saman við orð og stafahljóð í tungumálinu. Ef lesarinn heyrir ekki hljóðframburð þá er ekkert sem gefur til kynna að um orð á öðru tungumáli sé að ræða.
  • Ef fleiri en 2 taka þátt í samræðunum, leyfið þá einum að klára að tala áður en sá næsti tekur til máls. Ef varalesarinn missir af upphafi setningar hjá einhverjum getur mikilvægt samhengi tapast sem gerir skilninginn ómögulegan.
  • Komdu þér fljótt að efninu og slepptu ónauðsynlegum formála.  Orðalag þarf að vera eins hnitmiðað og hægt er; varalesarar þurfa sífellt að geta í eyður í frásögninni út frá samhenginu.
  • Varalestur er persónubundinn og lesari getur átt mis auðvelt með að lesa fólk. Ekki taka því persónulega þó lesari hvái oftar í samræðum við þig en við einhvern annan.
  • Mikilvægt er að vera ekki með neitt í munninum, svo sem munntóbak, brjóstsykur, mat eða tyggjó, þegar að rætt er við einstakling sem les af vörum. Munnhreyfingar verða oft óeðlilegri eða óskýrari ef viðkomandi er að jafnframt að passa upp á slíka „aðskotahluti“.
  • Dagamunur getur verið á varalesara og þó hann hafi skilið þig mjög vel í gær er ekki sjálfgefið að það sama eigi við í dag. Varalestur tekur mikið á andlega og varalesarinn getur orðið mjög þreyttur.
  • Sýnum þolinmæði og tillitssemi. Fólk með sjón- og heyrnarskerðingar hefur alveg jafn mikla þörf fyrir samskipti og fólk án þeirra. Ekki forðast spjall bara af því að það gæti „verið vesen.“

 

Gréta Hauksdóttir, 29.8.2022