Leikur og málörvun ungra blindra barna og samleikur með sjáandi börnum: Hlutverk fullorðinna.

Samantekt úr verkefni frá Statped um leik blindra barna og tilvísun í kafla úr bókinni Snemmtæk íhlutun í hnotskurn.

Hér má nálgast bæklinginn sem PDF-skjal.  (10 bls. 220 kB)

Að vera blindfæddur felur í sér miklar áskoranir fyrir barn þegar um er að ræða  leik, samspil og samskipti við önnur börn. Barn sem ekki sér á erfitt með að átta sig á leiknum og leikaðstæðum og á jafnframt erfitt með að skilja út á hvað leikurinn gengur hverju sinni. Sjónin veitir yfirsýn og skilning á aðstæðum á einu augnabliki. Ung blind börn þurfa tækifæri til mynda jafningjatengsl til að geta verið þátttakendur í félagsskap. Stuðningur frá foreldrum eða kennara getur haft afgerandi þýðingu m.t.t. hvernig til tekst.

Leikur byggir á sjónrænum upplýsingum sem gefa vísbendingu um handrit leiksins. Rannsóknir hafa sýnt að mikilvægt er að kenna blindu barni að leika á markvissan hátt og öðlast gleði og ánægju af því að leika með öðru barni. Einnig skiptir máli að aðlaga leiksvæðið, þ.e. huga að aðgengi að leikmunum og skipulagi og að leiksvæðið sé ekki of stórt.

Ung blind börn taka síður frumkvæði að samleik þegar þau vita ekki um hvað leikurinn snýst. Sjáandi börn eru drifin áfram af forvitni og áhuga­hvöt þar sem áhugaverð áreiti eru sýnileg allt í kringum þau og þau hafa auk þess yfirsýn yfir hvað leikfélagarnir eru að gera. Kennarar hafa þekkingu og áhuga á leik barna. Þeir hafa skilning á gildi frjálsa leiksins, geta horft á aðstæður úr frá sjónarhorni blinda barnsins og kunna að leika. Þeir hafa líka möguleika á að aðlaga aðstæður og vera til staðar án þess að vera of stýrandi.

 

Læra að leika

Á einu augnabliki fær sjáandi barn yfirsýn yfir það sem freistar og barnið hefur líka yfirsýn yfir það sem er að gerast hjá öðrum börnum á leik­svæðinu. Sjáandi börn koma sér umsvifalaust í leikinn og fá skýr skilaboð frá kennara sínum í gegnum augnsamband og svipbrigði. Leikur og sam­skipti eiga sér stað samstundis milli barnanna þar sem þau sjá hvert annað.

Áskorunin fyrir kennarann er hvað hann getur gert til þess að blinda barnið geti líka orðið forvitið og með gleðina að leiðarljósi notið þess að taka þátt í leik með öðru barni. Forsendur þess að blinda barnið læri að leika á sama hátt og sjáandi barn leikur og öðlist reynslu af samleik er öryggi í aðstæðunum og skýr rammi.

Rannsóknir sýna að ung blind börn sem hafa fengið tækifæri til að læra markvisst að leika, eiga auðveldara með að taka frumkvæði í leik­aðstæð­um síðar. Það hefur líka komið fram hversu mikilvægt það er að kennarar séu færir um að greina augnablikin í aðstæðunum hverju sinni sem gefa tilefni til þátttöku blinda barnsins í leik.

Leikurinn er mikilvægastur af öllu í lífi og þroska barna. Í gegnum leikinn öðlast barnið reynslu sem styður við þroska og nám. Málþroski eflist í leikaðstæðum enda á stöðug virkni, rannsókn og uppgötvun sér stað sem hefur mikil áhrif á málþroska barna. Þættir sem lúta að umferli og punktaletri tengjast mjög mikið leiknum og er auðvelt að hafa áhrif á þessa þætti í leikaðstæðunum.

 

Hvernig geta blind börn tekið þátt í leik með sjáandi börnum

Í leik bregðast sjáandi börn við því sem gerist í leiknum og því sem krafist er. Þau tengjast félögum sínum og eru með sameiginlega athygli á leikefninu og umhverfinu. Börn eru hugmyndarík, skapandi og virk. Leikurinn hefur mikil áhrif á félagsþroska og lífsgleði. Það er hlutverk kennarans að stuðla að möguleikum og tækifærum í leikastæðum til að blint barn geti tekið þátt í leik með sjáandi barni. Kennarinn er oft einhverskonar sjóntúlkur þar sem blinda barnið fer oft á mis við það sem gerist í kringum það og skortir þar með upplýsingar til að geta verið þátttakandi.

Afmarkað leikrými hefur mikil áhrif á möguleika blinda barnsins til þátttöku í leik. Einnig getur skipt máli að börnin þekki hvert annað til að auka líkur á að þau leiki saman. Kennarinn er þátttakandi á forsendum barnanna og hefur það hlutverk að upplýsa og túlka en ekki að „trufla“ samskiptin milli barnanna sem eiga sér stað hverju sinni.

Ung blind börn leika gjarnan með eða framkalla hljóð en tengja ekki endilega hljóðin við notagildi hluta. T.d. er ekki ólíklegt að blint barn noti kökukefli frekar til að slá því í borð til að framkalla hljóð þar sem barnið sér ekki hvernig hin börnin nota kökukeflið í þykjustuleiknum. Þess vegna skiptir máli að blind börn fái tækifæri til að upplifa raunverulegar aðstæður til að þau geti síðar tekið þátt í t.d. bökunarleik. Þegar blindu barni er kennt að leika þarf að taka mið af leikþroska barnsins og því hvernig sjáandi börn leika. Þá er hægt að vænta þess að blind börn geti tekið þátt í leik með sjáandi barni með stuðningi frá kennara.

Fyrir hvern leik sem leikinn er verður blinda barnið að fá tækifæri til að kynnast leikefninu sem er til staðar í leikaðstæðunum, helst með kennara sínum. Auðveldast er fyrir blint barn að leika við eitt barn í einu til að byrja með ásamt kennara.

Ef blinda barnið hefur áttað sig á leikefninu og skilur um hvað leikurinn snýst þá eru minni líkur á því að blinda barnið velji að nota tímann í að handfjatla hluti með sjálfu sér í stað þess að deila með öðru barni/kennara og vera virkur þátttakandi í leikaðstæðunum.

Blind börn hafa ekki á sama hátt og sjáandi börn möguleika á að skilja samhengi hluta þar sem snerting og hljóð gefa ekki heildarmynd af aðstæðum. Þetta hefur ótvírætt áhrif á virkni og möguleika blinda barnsins í leikaðstæðum, t.d. að skilja hvað gröfubíll er, hvernig hann virkar og hvernig börn leika gröfubílaleik. Ef hins vegar blinda barnið hefur fengið tækifæri til að rannsaka og prófa gröfubíl á útileiksvæði þá eru börnin með sameiginlega reynslu sem þau geta tekið með sér á hlutverkaleiksvæði síðar (stólar og aðrir hlutir geta í þykjustunni verið gröfubíll).

Hægt er að tala um mismunandi þrep í leikþroska.

 

Fyrsta þrep: Leikur með kennara/foreldri

Á fyrstu stigum leiks er það hinn fullorðni sem þarf að hafa hvetjandi áhrif á blinda barnið, kynna leikefni og kenna barninu að nota það eins og sjáandi börnum er tamt að gera. Þetta krefst undirbúnings af hálfu hins fullorðna sem þarf líka að vera þátttakandi og hvetjandi til að barnið vilji endurtaka leikathöfn ánægjunnar vegna.

Sjónin gefur á einu augnabliki yfirsýn og minnir sjáandi börn stöðugt á áhugaverð áreiti í umhverfinu. Þessi aðgangur að upplýsingum er ekki til staðar fyrir blint barn á sama hátt.

Dæmi um þykjustuleik með fullorðnum:

 • Hinn fullorðni þykist drekka úr bolla/glasi/pela með viðeigandi hljóðum og hreyfingum, þykist gefa barninu að drekka og hvetur til þess sama af barninu. Sama er hægt að gera með skeiðina. Smátt og smátt er hægt að þróa þennan leik til þess að leggja á borð, leika kaffiboð og bjóða jafnvel öðru barni með.
 • Bílaleikur, þykjast keyra í skólann eða heim og sækja vettlingana, keyra á bensínstöð til að taka bensín eða í búðina og versla (það má t.d. sitja á stól og þykjast keyra). Láta hugmyndaflugið ráða ferðinni.
  Gott getur verið að leika einfaldari útgáfu af bílaleik áður en kemur að þessum þykjustuleik. Nota leikfangabíl sem gefur frá sér hljóð og láta hann keyra á milli eða jafnvel að bjóða börnunum að styðja saman ofan á bílinn og láta hann hreyfast fram og til baka eða til hliðar. Mikilvægt er að blinda barnið þurfi ekki að bíða lengi eftir að fá að gera. Blinda barnið getur líka setið í fangi fullorðins og annað barn situr á móti. Passa að hafa mikla nálægð þannig að börnin finni fyrir hvort öðru.

Því yngra sem barnið er þeim mun nauðsynlegra er að notast við það sem barnið þekkir og hefur reynslu af, sem það tekur svo með sér inn í leikinn.

Þegar barnið sýnir aukið öryggi í leikaðstæðunum er hægt að vænta þess að barn og hinn fullorðni skipti um hlutverk, t.d. að barnið sé læknirinn og hinn fullorðni sé sjúklingurinn og barnið er þá meira stýrandi. Þetta gerist með aukinni reynslu og endurtekningu í leik barns og fullorðins.

Þegar blint og sjáandi barn leika saman þurfa þau að geta gert til skiptis, rétt hvort öðru og notið samveru. Ef barn sýnir ekki vilja til að deila með öðrum er hætta á því að það verði útilokað frá leiknum. Í leik með öðrum börnum læra börn að skiptast á hlutverkum og nota hluti saman.

Forsendan fyrir því að þetta gerist er að blinda barnið hafi fengið tækifæri til að læra að leika, öðlast leikreynslu og hafi lært að upplifa að leikur er skemmtilegur.

 

Annað þrep: Leikur milli blinda barnsins og sjáandi barnsins með stuðningi frá kennara

Forsendan er að kennarinn hafi góða þekkingu á leik og leikþroska barna. Einnig skiptir máli að kennarinn hafi gott skipulag í leikaðstæðunum og sýni sveigjanleika í leiknum.

Áskorunin er að kennarinn geti tekið þátt í leiknum á forsendum blinda barnsins og veitt stuðning án þess að trufla samspilið milli barnanna. Til að auðvelda samskipti er gott að velja leikfélaga sem blinda barnið þekkir og hefur góða færni í leik. Kennarinn ætti að forðast að „leiðrétta“ sjáandi barnið of mikið í samskiptum við blinda barnið en leggja meiri áherslu á stuðning og sjóntúlkun.

Blinda barnið er alltaf háð munnlegum útskýringum til viðbótar við reynslu af því að snerta, rannsaka og meðhöndla. Kennarinn ætti samt að forðast að tala allt of mikið þar sem það getur haft áhrif á möguleika barnsins til að upplifa og eiga samskipti. Of mikið talað mál getur verið á kostnað áþreifanleikans/upplifunarinnar.

Markmið kennarans er að fá börnin til að leika saman án of mikillar stýringar og stjórnunar. Í leikaðstæðunum skiptir hins vegar máli að kennarinn sé fyrirmynd og takist að koma á samskiptum. Kennarinn setur orð á/staðfestir það sem gerist þar sem blinda barnið fer á mis við það sem sjáandi barnið sér í umhverfinu („Nonni“ er að hræra í pottinum). Það er mikilvægt að börnin séu nálægt/í snertingu hvort við annað til þess að blinda barnið skynji betur það sem gerist hjá sjáandi barninu og hafi möguleika á að verða forvitið og vilji herma.

Það gerist stundum að sjáandi barnið snýr sér frekar til kennarans sem er á staðnum í stað þess að beina orðum sínum og athygli beint til blinda barnsins. Þetta gerist helst ef hinn fullorðni er of fljótur að svara eða bregðast við í stað þess að hvetja sjáandi barnið til að beina samskiptunum til blinda barnsins.

Þegar börnin hafa vanist því í nokkur skipti að leika saman, t.d. þykjustuleik með kaffiboð, getur kennarinn dregið sig aðeins í hlé. Kennarinn er til staðar og getur alltaf brugðist við ef honum sýnist leikurinn ætla að stoppa eða breytast í einleik.

Þegar blint barn lærir nýjan leik er alltaf gott að kynna hann fyrir barninu til að auka líkur á því að það geti notið leiks með öðru barni. Þetta geta verið leikir með kubba, eldhúsáhöld, bíla, hreyfileikir o.fl.

Ef ekki er búið að aðlaga og kynna leikaðstæður fyrir blinda barninu er hætta á því þær verði óyfirstíganlegar. Til að auka líkur á virkni og þátttöku verður blinda barnið að skilja hvað er að gerast þannig að það geti átt möguleika á að staðsetja sig í leikaðstæðunum og finna leikgleðina.

Þegar barnið hefur upplifað færnina og gleðina við að leika við annað barn, með þátttöku og stuðningi frá kennara, verður auðveldara að hvetja barnið til að eiga frumkvæði að því að eiga samskipti við önnur börn. Í leiknum eru tækifæri til að tengjast og eignast vini og hafa tilfinningu fyrir því að tilheyra hópnum. Þegar blinda barnið upplifir styrkinn sinn í samskiptunum þá eflist um leið sjálfstraust og sjálfstæði.

 

Drifkraftur/hvati hjá blindu barni

Sjónin hvetur sjáandi börn stöðugt í virkni og samskiptum. Hjá blindu barni fer orkan oft í það sem kallast blindismi, sem birtist í endurteknum líkamshreyfingum og/eða einhæfum aðgerðum með hluti. Ástæðan fyrir þessu er sú að blinda barnið skortir tækifæri til að fá upplýsingar frá umhverfinu og hefur takmarkaðri möguleika til virkni. Ung blind börn eru því háð því að fullorðnir aðstoði barnið við að fá yfirsýn og skilning í leikaðstæðunum. Til að draga úr blindisma er virkni og þátttaka í öllum athöfnum daglegs lífs mjög mikilvæg.

 

Málörvun/boðskipti

Úr bókinni Snemmtæk íhlutun i hnotskurn ― Verkfærakista hugmynda, sem var gefin út 2021, er fjallað um málþroska ungra barna. Þar er m.a. rætt um sameinaða athygli, að gera til skiptis, eftirhermu o.fl. Hér á eftir er vísað í nokkur atriði í bókinni sem vert er að veita athygli m.t.t. mál- og leikþroska blindra barna. Bókin er mjög gagnleg fyrir kennara allra barna sem þurfa styrkingu og hvatningu m.t.t. málþroska barna.

1. Að sameina athygli

Sameinuð athygli er þegar barn og fullorðinn deila saman reynslu, snerta og stýra athygli hvors annars að sameiginlegum hlut eða athöfn. Hún felur meðal annars í sér að hafa áhuga á viðbrögðum annarra. Þessi sameinaða athygli styrkir málþroska og málskilning.

Hugmyndir að íhlutun fyrir sameinaða athygli

 • Vekja athygli barnsins á spennandi leikfangi/hlut/athöfn og deila með því upplifuninni.
 • Nota þreifimyndir/bækur með spennandi myndum. Með því að deila sameiginlegri vitund og áhuga á myndunum eða bókinni er verið að stuðla að því að sameina athygli.
 • Hinn fullorðni leiki við tvö börn í einu og beini meðvitað athygli þeirra að hvort öðru í gegnum leikaðstæður (leikföng, hreyfileikir).

 

2. Að gera til skiptis

Að gera til skiptis skiptir sköpum til að geta þróað samræður samhliða því sem mál, tal og boðskipti þróast. Hjá litlum börnum þroskast þessi hæfileiki í gegnum leik, með eftirhermu, sameinaða athygli og í gegnum samskipti við aðra. Barn þarf að læra að gera til skiptis til það geti hlustað á aðra og átt boðskipti og samræður við þá.

Hugmyndir að íhlutun til að æfa að gera til skiptis

Nota skilaboðin: „fyrst ég, svo þú“

 • Leika með leikföng sem hreyfast, t.d. boltar með hljóði
 • Bílaleikur, t.d. bílar sem heyrist í
 • Byggja úr kubbum; segulkubbar geta reynst vel þar sem þeir smella saman án þess að hafa neitt fyrir því
 • Kenna börnum að deila leikföngum með öðrum, t.d. rétta hvort öðru skeið/glas til að þykjast drekka

 

3. Eftirherma

Tal er flókið ferli og krefst hreyfinga talfæra og myndun orða. Eitt af því mikilvægasta til að byggja upp getu til að þróa talmál er að kenna barninu að herma eftir hreyfingum og síðan merkingarbærum hljóðum og orðum. Lítil börn eiga auðveldara með að herma eftir hljóðum frekar en orðum og oft auðveldara að ná fram hljóðum jafnhliða hreyfingu. Sem dæmi má taka að keyra bíl og segja brrrrrrr eða slá trommu og segja bomm bomm. Í þessum hermileikjum er auk þess verið að styrkja færni í sambandi við sameiginlega athygli og stuðla að samskiptum.

 

4. Að skapa þörf fyrir boðskipti

Að skapa þörf fyrir boðskipti felur í sér að búa til aðstæður sem hvetja barn til að eiga samskipti. Mikilvægt er að stuðla að því að börn eigi í samskiptum í sem flestum aðstæðum. Hugmyndir að íhlutun til að skapa þörf fyrir boðskipti eru m.a. að sýna eftirvæntingu við útspili/svari barnsins og túlka hljóðakeðjur barnsins sem merkingabær orð eða boðskipti. Í bókinni Snemmtæk íhlutun í hnotskurn koma einnig fram hugmyndir fyrir börn sem ekki eru byrjuð að nota talmál. Þar kemur fram mikilvægi þess að vinna markvisst með:

 • að styrkja tengslamyndun
 • sameinaða athygli
 • eftirhermu (bæði hreyfingar og hljóð)
 • að herma eftir hljóðum
 • að styrkja málhljóð
 • merkingabær orð
 • að gera til skiptis
 • að skapa þörf fyrir boðskipti
 • daglegar rútínur við athafnir daglegs lífs, í fataklefa, við matarborðið o.s.frv.

 

Samantekt

Það getur verið krefjandi fyrir blinda barnið að taka þátt í leik með öðrum börnum. Börn færa leikefni frá einum stað til annars á leiksvæðinu og færa sig sjálf milli staða í leiknum. Þess vegna skiptir máli að hinn fullorðni sem er á leiksvæðinu sjóntúlki það sem fram fer án þess að breyta handriti leiksins.

Leikaðstæður þurfa að vera vel skipulagðar, blinda barnið þarf að hafa stjórn á aðstæðum og tryggja þarf að fá börn séu á svæðinu til að auka líkur á virkri þátttöku blinda barnsins. Einnig er mikilvægt að minna á að blind börn læra að skilja umhverfi sitt og öðlast málskilning með því að nota heyrnræn og áþreifanleg áreiti (hlusta, snerta og rannsaka). Fyrirfram ákveðið leikþema (leikur) virkar oft vel með tilliti til mögulegrar þátttöku blindra barna. Leikefnið/leiksvæðið er þá kynnt fyrir blinda barninu fyrir fram til að tryggja að barnið viti hvað er í boði og út á hvað leikurinn gengur (bílaleikur, eldhúsleikur, dúkkuleikur). Ef þetta er ekki gert er viss hætta á því að blinda barnið eyði tímanum í að handfjatla þann hlut sem það finnur fyrst og þar með er barnið ekki tilbúið í samleik.

Börn taka með sér eigin reynslu inn í leikinn, það sem þau hafa upplifað í daglegu lífi eða séð aðra gera. Þetta getur verið kaffihúsaferð, verslunar­ferð, þátttaka í matargerð, uppþvotti o.fl. Sjáandi börn nota líka í leiknum það sem þau hafa séð á netmiðlum, t.d. eitthvað sem tengist dýrum, slökkviliði o.fl. Fyrir blind börn er virkni/upplifun enn mikilvægari en hjá sjáandi börnum þar sem þau þurfa að fá reynsluna á áþreifanlegan hátt. Það er því mikilvægt að taka mið af reynsluheimi blinda barnsins þegar um er að ræða fyrir fram ákveðinn leik með öðrum börnum.

„The world seeks infants who can see, but infants who cannot see must learn to seek the world.“

„Heimurinn fangar sjáandi börn en börn sem ekki sjá þurfa að fanga heiminn.“

Rannveig Traustadóttir, janúar 2023

 

Heimilidir: