Hreyfing og umhverfisvitund eru stór hluti af námi og þroska. Oft þurfa blindir og sjónskertir einstaklingar sérstaka hvatningu og stuðning til að kanna umhverfi sitt og efla umhverfisvitund. Umferli gerir blindum og sjónskertum kleift að staðsetja sig í umhverfinu og komast leiðar sinnar. Oft er talað um H-in þrjú, Hvar er ég, Hvert er ég að fara og Hvernig kemst ég þangað.

   
Kennsla í umferli nýtist börnum jafnt sem fullorðnum til að læra að þekkja umhverfi sitt með skilvirkum og öruggum hætti. Einnig getur kennsla í umferli komið að gagni þegar verið er að aðlagast nýjum aðstæðum, t.d. eftir flutninga eða á nýjum vinnustað. 
 
Þegar einstaklingur fær ráðgjöf/kennslu í umferli eru sett fram markmið og áætlun allt eftir þörfum og óskum hvers og eins.  
 
Í markmiðum eru eftirfarandi atriði höfð í huga: 
  •  Skynjun: Að kynnast umhverfi sínu gegnum heyrn, lykt, bragð og snertingu 
  • Hugarkort: Að búa sér til hugarmynd af leið frá þáttum í umhverfinu, t.d. hljóðum eða hlutum í rými 
  • Kennileiti og skipulag: Átta sig á föstum kennileitum og staðsetningu þeirra auk þess að átta sig á skipulagi í rými 
  • Leiðsögutækni: Að vera meðvitaður um hvernig hægt er að ferðast um með öðrum til að komast á milli staða. Um leiðsögutækni
  • Staftækni: Að tileinka sér notkun hvíta stafsins í mismunandi aðstæðum t.d. í tröppum, á göngu og meðfram vegg 
Hafa þarf í huga að þó svo umferlisráðgjafi komi að kennslu í umferli er alltaf um að ræða samvinnu og samstarf við einstaklinginn sjálfan. Nánir aðstandendur, kennarar og vinir geta einnig haft áhrif og stuðlað þannig að aukinni umhverfisvitund og sjálfstæði.