Hreyfing og umhverfisvitund eru stór hluti af námi og þroska allra manna. Oft þurfa blindir og sjónskertir einstaklingar sérstaka  þjálfun og stuðning til að kanna umhverfi sitt, efla umhverfisvitund sína og færni til að komast af í misjafnlega kunnugum aðstæðum. Umferlisþjálfun gerir blindum og sjónskertum kleift að verða betri í að staðsetja sig í umhverfinu og komast leiðar sinnar á einfaldari hátt, án þess að þurfa að reiða sig á annað fólk. Oft er talað um undirstöður umferlis sem H-in þrjú, þ.e. Hvaðan er ég að koma, Hvert er ég að fara, og Hvernig vil ég komast þangað.

Umferlisþjálfun nýtist börnum jafnt sem fullorðnum og margir leggja stund á umferli alla ævi til að kunna á umhverfi sitt með skilvirkum og öruggum hætti. Einnig getur umferlisþjálfun komið að gagni fyrir blinda og sjónskerta þegar verið er að aðlagast nýjum aðstæðum, t.d. eftir flutninga eða á nýjum vinnustað.

Eftir síðari heimsstyrjöldina var þróuð ákveðin tækni fyrir hermenn sem höfðu misst sjónina til að gera þeim auðveldara að skynja umhverfi sitt. Þar með var grunnurinn lagður að nútíma umferlisþjálfun. Á sjöunda áratug síðustu aldar hófu háskólar að bjóða upp á umferliskennaranám, en ætlunin var að umferliskennarar kenndu fullorðnum og börnum á skólaaldri. Á níunda áratugnum litu kenningar um snemmtæka íhlutun dagsins ljós, þ.e. að því fyrr sem börn fá viðeigandi þjálfun, því betur nýtist það þeim í framtíðinni. Nú er algengt að blindum og sjónskertum börnum sé kennt umferli allt frá leikskólaaldri.

Þegar einstaklingur fer í umferlisþjálfun eru markmiðin sett í samvinnu við umferliskennara og fara þau eftir þörfum og óskum hvers og eins. Þó getur verið gott að hafa  eftirtalin atriði í huga við markmiðasetningu í umferli.

Skynvitund: Að kynnast umhverfi sínu gegnum heyrn, lykt, bragð og snertingu.

Hugarkort: Að búa sér til kennileiti út frá þáttum í umhverfinu, t.d. með hljóðum eða einkennum í rými.

Leit: Þekkja hvar hlutir í umhverfinu eru staðsettir og finna þá aftur.

Sjálfstæð hreyfing, t.d. að ganga, hlaupa, skríða, leita að hlutum o.fl. á eigin spýtur.

Leiðsögutækni: Að nýta sér aðstoð sjáandi manneskju við að komast ferða sinna.

Varnartækni: Sérstakar leiðir til að verjast höggi, falli eða öðru slíku í ókunnum jaðstæðum.

Staftækni: Að tileinka sér að beita hvíta stafnum í mismunandi aðstæðum og vita hvers konar  staftækni hentar hvaða aðstæðum.

Þó svo umferliskennarar séu aðallega ábyrgir fyrir umferlisþjálfun blindra og sjónskertra einstaklinga, geta nánir aðstandendur á borð við kennara, vini og fjölskyldumeðlimi stuðlað að aukinni umhverfisvitund, öryggi og sjálfstæði. Þegar börn eru mjög ung getur hlutverk umferliskennara fyrst og fremst falist í ráðgjöf til aðstandenda barnanna, t.d. foreldra og kennara.  Með umferlisþjálfun geta einstaklingar einnig lært að sýna frumkvæði, t.d. með því að búa til eigin kennileyti, spyrja til vegar o.fl.