Hér má nálgast textann sem PDF-skjal 

Sjáandi börn hafa góða yfirsýn yfir umhverfi leikskólans og sjá hvað fullorðnir og börn taka sér fyrir hendur. Þau hafa því nokkuð góða stjórn á aðstæðum sem hefur áhrif á færni, öryggi og traust. Blind börn geta farið á mis við samhengi hluta vegna skorts á sjónrænni yfirsýn. Mikilvægt er að gefa blindu barni tækifæri til að vera virkur þátttakandi í athöfnum daglegs lífs, leik og viðburðum. Þetta skiptir máli til að tryggja öryggi, traust og vellíðan, auka skilning þeirra á sjálfshjálp, leik og námi. Alltaf þarf að taka mið af aldri og þroska barnsins.

Sjálfstæði styrkist með þátttöku í athöfnum daglegs lífs:

  • Í fataherbergi: Hjálpa barni að hengja upp fötin sín og/eða barnið fær hvatningu við að vera sjálfstætt við þessa athöfn. Hvetja til sjálfstæðis við að klæða sig í og úr í tengslum við útiveru.
  • Morgun/hádegismatur: Veita barni upplýsingar um hvað er á borðinu. Hella í glas úr lítilli fernu/könnu með eða án aðstoðar, fá sér á diskinn, læra að nota viðeigandi áhöld, ganga frá o.s.frv.
  • Athafnir á salerni: Taka þátt í athöfnum eins og hentar hverju barni, ná í klósettpappír, sturta niður, skrúfa frá krana o.s.frv.

Mikilvægir þættir í tengslum við sjálfstæði:

  • Hlutir eigi sína föstu staði.
  • Leikfangaílát merkt með táknum og/eða punktaletri.
  • Húsgögn séu á sínum vísu stöðum og ef þau eru færð til að gera barninu grein fyrir því enda eru húsgögn mikilvæg kennileiti í rýminu.
  • Auðþekkjanleg kennileiti/merkingar við fataherbergi, salerni og við inngang í önnur rými í skólanum.

Umferli – að læra á umhverfi sitt

Mikilvægt er að barnið fái tækifæri til að átta sig/læra á rými deildarinnar sem það ver mestum tíma dagsins í. Með því styrkist rýmisvitund/áttun og sjálfstæði og sjálfstraust eflist. Mikilvægt að barnið upplifi smátt og smátt að það geti komist milli staða óháð öðrum.

  • Kynna helstu föstu kennileiti,
  • Taka stefnu með því að stilla sér upp,
  • Læra að fara frá einu kennileiti að öðru,
  • Læra leiðir t.d. leið frá inngangi inn í aðalrými.

Rútína, skipulag, hlutir sem eiga sína föstu staði, færni barns við að komast milli staða, færni við að velja og tjá skoðanir eru þættir sem skipta máli í sambandi við að þroska sjálfstæði og persónuleika barns.

ÉG get og ÉG vil

 

Leikur og samskipti

Blind börn hafa sömu þörf og sjáandi börn fyrir innihaldsríka leiki og samskipti. Þau hafa hins vegar ekki sömu möguleika í hermileik og hafa ekki sömu yfirsýn yfir leiksvæði. Blind börn eru líka lengur að kynnast notagildi hluta/leikfanga. Fullorðnir þurfa að gefa barninu tíma til að kynnast hlutum/leikföngum til að auka möguleika barnsins í samskiptaleik.

  • Meðhöndla hlut/leikfang
  • Rannsaka og kynnast notagildi hluta/leikfanga
  • Afmarkað og skipulagt leiksvæði
  • Fá börn í þykjustu- og hlutverkaleik

(sjá bækling: Leikur blindra barna)

 

Grófhreyfingar

Hreyfileikir af ýmsu tagi gefa barninu tækifæri til að styrkja líkamsvitund, auka jafnvægi, efla vöðvastyrk og síðast en ekki síst styrkja rýmis­skynjun, hugtakaskilning og umferli. Blind börn þurfa hvatningu og stuðning til að auka áræðni og þor í hreyfingum.

  • Æfingar sem felast í að skríða yfir, undir.
  • Klifra í rimlum, trjám, upp á kantsteina o.s.frv.
  • Ganga upp og niður brekkur.
  • Hopp, skopp og hlaup.
  • Hjóla og róla.
  • Boltaleikir, rúlla/sparka á milli, rúlla bolta til að fella keilur o.s.frv. Bolti með hljóðgjafa kemur sér vel.
  • Kasta bolta í ílát (kassa/fötu).

Fínhreyfingar

Fínhreyfileikir gefa barni möguleika á að tileinka sér vitneskju um mis­mun­andi áferð og lögun, styrkja hand- og fingrastyrk og samhæfingu handa.

  • Leikir með hluti sem hafa mismunandi áferð; leir, vatn og sandur, pappír og lím, fingramálning með sandi/hrísgrjónum eða öðrum efnivið.
  • Greina á milli forma og stærða (hringur, ferhyrningur, þríhyrningur, sívalningur) ― (stór-lítill, langur-stuttur, hár-lágur).
  • Teikna (netabretti, vaxleir).
  • Klippa, líma, hefta, rífa.
  • Nota verðlaust efni til að útbúa listaverk.
  • Þræða perlur/bjöllur á snúru/pípuhreinsara, misstórar og með mismunandi lögun.
  • Leika með vatn, hella frá einu íláti í annað, kanna hvað gerist.

Sögugerð

Með því að útbúa söguskjóður/sögupoka með raunverulegum hlutum er hægt að segja sögur án þess að notast eingöngu við upprunalegu bókina. Einnig er hægt að útbúa bækur með áþreifanlegum myndum. Börnin geta verið þátttakendur í að ákveða hvaða efniviður er notaður í þreifibækur. Einnig er hægt að semja sögur saman.

Upplifun

Orð og munnlegar skýringar koma ekki í stað raunverulegra upplifana. Of mörg orð og útskýringar geta líka truflað rannsókn og uppgötvun.

  • Því fleiri tækifæri til upplifunar því betra.
  • Fara endurtekið á sömu staðina til að barnið fái tækifæri til að upplifa eitthvað nýtt í hvert skipti og öðlast betri skilning á aðstæðum.
  • Taka eitthvað með sér heim/í leikskólann frá viðeigandi stöðum (hlutir í stað mynda) og setja í minniskassa. Á þann hátt er auðveldara að rifja upp og endurupplifa.
  • Hljóðupptökur.

Staðfesting og fyrirsjáanleiki í daglegu lífi

Fyrirsjáanleiki er þáttur í því að skapa öryggi og traust hjá blindum börnum. Það er m.a. gert með því að skapa rútínu, hafa skýrt og skiljan­legt skipulag fyrir barnið (í hvaða röð gerast athafnir), aðgengilegt umhverfi/afmörkuð rými og að hlutir/húsgögn eigi sína föstu staði.

Samtímis er mikilvægt að vera meðvitaður um að deila upplifun og stað­festa við barnið hvað er að gerast hverju sinni. Varast ber þó að hafa ekki allt of mörg orð um það sem gerist í aðstæðunum þar sem barnið verður líka að fá tækifæri til að einbeita sér í upplifun sinni.

  • Hver kemur inn á leiksvæðið?
  • Hver er að tala?
  • Hvaða lykt finnum við, hvar höfum við áður fundið þessa lykt?
  • Af hverju ætli Óli sé að gráta?
  • Hvað þurfum við að gera áður en við borðum?

Að spyrja spurninga og setja orð á upplifun barns og fullorðins, fær barnið til að átta sig á að við erum með sameiginlega upplifun af því sem gerist í aðstæðunum hverju sinni. Samtímis notum við málið til að ná sameigin­legri athygli barns og fullorðins sem leiðir til þess að barnið öðlast færni til að gera það sama með leikfélögum sínum. Þá er markmiðinu náð!

Tekið saman af Rannveigu Traustadóttur,
janúar 2022