Fjórir námsstyrkir hafa verið veittir úr Þórsteinssjóði til blindra og sjónskertra stúdenta við Háskóla Íslands. Þetta er í ellefta skipti sem styrkjum er úthlutað úr sjóðnum og nemur upphæð styrkjanna samtals 2,8 milljónum króna.
Megintilgangur Þórsteinssjóðs er að styrkja blinda og sjónskerta stúdenta til náms við Háskóla Íslands. Enn fremur er sjóðnum ætlað að efla rannsóknir sem aukið geta þekkingu á blindu og skertri sýn og afleiðingum hennar og fjölga þannig tækifærum blindra og sjónskertra til að auðga og efla líf sitt. Sérstök áhersla er lögð á styrki til rannsókna í félags- og hugvísindum sem falla að tilgangi sjóðsins.
Námsstyrki í ár hljóta fjórir nemendur við Háskóla Íslands. Það eru þau Sandra Sif Gunnarsdóttir, MS-nemi í klínískri sálfræði á Heilbrigðisvísindasviði, Patrekur Andrés Axelsson, BS-nemi í sjúkraþjálfunarfræði á Heilbrigðisvísindasviði, Kaisu Kukka-Maaria Hynninen, BA-nemi í íslensku sem annað mál á Hugvísindasviði, og Júlíus Birgir Jóhannsson, BA-nemi í táknmálsfræði og táknmálstúlkun á Hugvísindasviði. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, afhenti styrkina í Hátíðasal HÍ.