Í dag, 4. janúar er alþjóðlegur dagur punktaleturs. Þann 4. janúar 1809 fæddist Louis Braille í smábænum Coupvray í Frakklandi. Þegar hann var þriggja ára missti hann sjón á öðru auganu þegar alur í aktygjasmiðju föður hans rakst í það. Sýking í skaddaða auganu barst yfir í hitt augað og hann missti að lokum sjón á því líka. Louis reyndist vera prýðis námsmaður og 10 ára gamall hlaut hann styrk til náms við Konunglega skólann fyrir blind ungmenni (Institution Royale des Jeunes Aveugles). Þar kynntist hann punktaleturskerfi sem Charles Barbier de la Serre, franskur áhugamaður um skriftarkerfi og fyrrum hermaður, hafði skapað. Þetta kerfi þróaði Louis Braille áfram og kynnti samnemendum sínum endurbætta og fjölhæfari útgáfu þess árið 1824. Þetta letur heitir á mörgum tungumálum eftir höfundinum (braille) og er notað um allan heim í dag, en í mismunandi útgáfum.

Þann 7. júní 2011 var punktaletur fest í lög sem íslenskt ritmál. og árið 2018 samþykkti aðalþing Sameinuðu þjóðanna að festa í sessi alþjóðlegan dag punktaletursins þann 4. janúar ár hvert.

Skemmtilegar staðreyndir um punktaletur:

Til að skrifa punktaletur eru oft notaðar punktaletursritvélar. Á þeim eru sex takkar fyrir hverja sellu í punktaletrinu. Auk þess eru takkar sem gera notandanum kleift að fara fram og aftur í línunni og fara niður í næstu línu.

Á undanförnum árum hafa verið gefin út leikföng með punktaletri, t.d. UNO-spilið, LEGO og Rubiks-teningurinn.

Mynd af UNO-spilinu með punktaletri

Í Castle Sant’Elmo á Ítalíu er stórkostlegt útsýni yfir Napolí-borg og umhverfi hennar. Á handrið kastalans er búið að prenta með punktaletri, ljóðræna lýsingu á útsýninu.

Mynd af handriði Castle Sant’Elmo kastalans og útsýninu