Starfsmenn Sjónstöðvar áttu nýverið fund með þremur starfsmönnum Reykjavíkurborgar. Tilefni fundarins var að ræða virkni og samræmingu hnappaboxa á höfuðborgarsvæðinu. Hnappaboxin sem um ræðir eru blá, ferköntuð og u.þ.b. 20 cm löng. Hnappaboxin eiga að vera með upphleyptri ör að ofanverðu sem segir til um í hvaða stefnu skuli gengið yfir götu og upphleyptar þreifimerkingar á hlið láta vita um fjölda akreina, umferðareyju og hjólastíg. Undir hnappaboxunum er þrýstihnappur/hringur með slætti svo að hægt sé að skynja með fingri hvort um grænt eða rautt ljós er að ræða. Einnig eru hnappaboxin með umhverfisstýrðum hljóðgjafa, sem hækkar hljóðstyrkinn þegar hljóð í umhverfinu hækkar.

Þessi hnappabox eru mjög mikilvæg fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga og því er mikilvægt að allir leggi sitt af mörkum til að auka öryggi allra samfélagsþegna.

Fólk er hvatt til að skoða þessi hnappabox á sínum ferðum og athuga virkni þeirra. Ef virknin samræmist ekki aðstæðum þá vinsamlegast sendið ábendingar til umferðarljósadeildar Reykjavíkurborgar á netfanginu umferdarljos@reykjavik.is

Ef einhverjar spurningar eru varðandi þessi hnappabox er velkomið að hafa samband við midstod@midstod.is