Dagana 4. til 6. maí næstkomandi verður haldin á Íslandi norræn ráðstefna fyrir ráðgjafa blindra og sjónskertra barna á leikskólaaldri. Þetta er í fyrsta sinn í 30 ára sögu ráðstefnunnar að hún er haldin á Íslandi og hana sækja 50 ráðgjafar frá öllum Norðurlöndunum.

Í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Louis Braille, sem var upphafsmaður punktaletursins, verður sérstök áhersla lögð á punktaletrið í fyrirlestrum ráðstefnunnar. Má þar til dæmis nefna mjög áhugaverðan fyrirlestur frá pólska sérfræðingnum Boguslaw Marek, en hann hefur hannað kennsluefni fyrir blind og sjónskert börn sem kallast „Hungry fingers“. Kennsluefnið er hannað með það í huga að hjálpa blindum börnum að skilja hvernig raunverulegir hlutir breytast í upphleyptar myndir. Þetta kennsluefni hjálpar blindum börnum að skilja erfið hugtök sem byggja á sjónrænum upplýsingum. Á ráðstefnunni starfa vinnuhópar sem munu skoða og ræða árangur markvissrar vinnu með náms- og kennsluefnið sem Boguslaw Marek hefur þróað á síðustu árum. Námsefnið hefur m.a. verið notað í Danmörku með góðum árangri.

Auk þessa verða kynnt þróunarverkefni frá öllum Norðurlöndunum; um málörvun blindra barna, ritmálsörvun og þreifibækur, um samskipti blindra og sjáandi barna í leik og um sjónörvun alvarlegra sjónskertra barna.

Norrænar ráðstefnur fyrir ráðgjafa blindra og sjónskertra barna hafa fyrir löngu sannað gildi sitt. Þær eru mikilvægur vettvangur fyrir samstarfs- og þróunarverkefni, auk þess sem þær gefa sérfræðingum á þessu sviði tækifæri til að auka þekkingu sína og reynslu.

Það er mjög ánægjulegt fyrir okkur Íslendinga að fá tækifæri til að halda ráðstefnuna á þessu afmælisári og verður ýmislegt gert af því tilefni. Við setningu ráðstefnunnar mun Flensborgarkórinn flytja þjóðsöngva allra Norðurlandanna undir stjórn Hrafnhildar Blomsterberg og saga ráðstefnanna verður sögð í máli og myndum. Ráðstefnuslit verða á Bessastöðum þar sem forseti Íslands tekur á móti ráðstefnugestum.

Að ráðstefnunni standa Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Þessar tvær stofnanir koma að þjónustu blindra barna og einnig sjónskertra barna með viðbótarfatlanir og eiga með sér gott samstarf. Solveig Sigurðardóttir, sviðsstjóri á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins mun flytja erindi á ráðstefnunni um snemmtæka íhlutun, þar sem hún m.a. fjallar um samstarf þessara tveggja stofnana.

Undirbúningsnefnd skipa Rannveig Traustadóttir og Sabína Steinunn Halldórsdóttir frá Þjónustu- og þekkingarmiðstöðinni og Bryndís Halldórsdóttir frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.