Dagana 4. til 6. maí síðastliðinn var haldin norræn ráðstefna fyrir ráðgjafa blindra og sjónskertra barna á leikskólaaldri. Þetta var í fyrsta sinn í 30 ára sögu ráðstefnunnar að hún var haldin á Íslandi og hana sóttu 50 ráðgjafar frá Norðurlöndunum.

Fróðleg og fjölbreytt erindi voru flutt frá þjóðunum fimm og skemmtilegar umræður sköpuðust í kringum hvert þeirra. Þátttakendur voru á einu máli um að ráðstefnan sé mikilvæg í ljósi þess að þjóðirnar vinna að mörgum mismunandi verkefnum og hafa mikið fram að færa hver fyrir aðra. Umræðugrundvöllurinn sé mikilvægur til að víkka sjóndeildarhringinn og læra hver af annarri til að bæta þjónustu við notendur. 

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var pólski sérfræðingurinn Boguslaw Marek sem hefur hannað kennsluefni fyrir blind og sjónskert börn sem kallast „Hungry fingers“. Kennsluefnið er hannað með það í huga að hjálpa blindum börnum að skilja hvernig raunverulegir hlutir breytast í upphleyptar myndir. Þetta kennsluefni hjálpar blindum börnum að skilja erfið hugtök sem byggja á sjónrænum upplýsingum.

Kennsluefni Boguslaws Mareks var áhugavert og Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin hefur hug á að tileinka sér kennsluefni hans enn frekar til kennslu á Íslandi.

Ráðstefnunni var slitið á Bessastöðum þar sem fimm konur, sem ýttu þessari ráðstefnu úr vör fyrir 30 árum á Íslandi, voru heiðraðar. Ráðstefnugestir voru á einu máli um að ráðstefnan hefði verið Íslandi til sóma og hlakka til frekara samstarfs á næstu árum. Skipulagning er nú þegar hafin fyrir næstu ráðstefnu en við ráðstefnuslit buðu Finnar til Helsinki í júní 2012.

Mynd af þátttakendum á ráðstefnunni fyrir utan Bessastaði