Síðastliðinn vetur stóðu Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin og leikskólinn Sólbakki fyrir mjög áhugverðu verkefni í tengslum við kennslu punktaleturs fyrir 4 ára gamlan blindan dreng.

Um er að ræða sérhannaða þreifikubba með stækkuðum punktum sem auðvelda börnum að skynja og átta sig á eðli punktaleturs.

Notkun kubbanna er blanda af leik og námi og byggir á hugmyndafræði leiksins og bernskulæsis.

Kubbarnir eru notaðir í tengslum við mál- og ritmálsörvun, hljóðvitund, bókastafaþekkingu og önnur verkefni þar sem bókstafir koma við sögu í kennslu- og hópastarfi.

Ritmálið er allt í kringum okkur og eðlilegur þáttur í heimi barnsins. Umhverfið í leikskólanum er gjarnan þannig að forvitni barnanna varðandi ritmálið er mætt á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Markmiðið með þessu verkefni er ekki síst að gera ritmálið sýnilegt fyrir blint barn á sama hátt og gerist með sjáandi börn og gefa barninu kost á því að kynnast og læra punktaletur, sem er letur þeirra sem lesa með fingrunum.

Eftir að verkefnið hófst er punktaletrið mun sýnilegra í leikskólanum. Merkingar eru mjög víða á húsgögnum, fataklefa, myndum og verkefnum barnanna og á fleiri stöðum. Gott aðgengi er einnig að þeim efnivið sem þarf til punktaletursgerðar.

Sá sem hefur þó haft mest gagn og gaman af verkefninu er nemandinn sjálfur og hefur hann sýnt miklar framfarir í vetur og er farinn að geta lesið bókstafi og stutt orð á  punktaletri og skrifað töluvert á punktaletursritvélina sína.