Þann 15. október var starfsfólk Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga með kennslu í notkun hvíta stafsins á Háskólatorgi við Háskóla Íslands og í Kringlunni. Tilgangurinn var að vekja athygli á hvíta stafnum, þýðingu hans fyrir notandann og umhverfið og einnig að vekja athygli á umferli blindra og sjónskertra einstaklinga. Kynningin gekk mjög vel og fjölmargir vegfarendur prófuðu hvíta stafinn undir leiðsögn starfsfólks Miðstöðvarinnar.

Hvað er hvíti stafurinn?

  • Hvíti stafurinn er mikilvægt hjálpartæki sem notað er til að afla upplýsinga í umhverfinu sem ferðast er um.
  • Hvíti stafurinn minnir jafnframt sjáandi vegfarendur á að notandi hvíta stafsins er sjónskertur og upplifir því umhverfið og umferðina ekki á sama hátt og hinn sjáandi vegfarandi.
  • Hvíti stafurinn er hjálpartæki sem getur aðstoðað blinda og sjónskerta mikið og aukið sjálfstæði og öryggi við að komast leiðar sinnar.

Til eru nokkrar gerðir stafa:

  • Þreifistafur: Hefðbundinn hvítur stafur sem notaður er í umferli. Hann er langur og oftast samanbrjótanlegur. Á göngu er honum haldið fyrir framan vegfarandann til að  upplýsa hann um hugsanlegar hindranir eða misfellur í veginum eða til að fullvissa notandann um að leiðin sé greið. Hann er líka notaður til að finna hluti og kennileiti og aðstoðar þannig einstaklinginn við að staðsetja sig.
  • Merkistafur: Stuttur og samanbrjótanlegur stafur sem er merki til umhverfisins um að notandinn sé sjónskertur. Stafinn má einnig nota til að þreifa á og finna hluti í umhverfinu.
  • Göngustafur: Stafur sem hægt er að stilla lengdina á. Stafurinn er notaður til stuðnings og til að halda betur jafnvægi.

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga sér um úthlutun hvíta stafsins. Miðstöðin er til húsa að Hamrahlíð 17, 105 Reykjavík, á fimmtu hæð og þar eru veittar upplýsingar um hvíta stafinn. Einnig eru upplýsingar um hvíta stafinn og umferli á heimasíðu Miðstöðvarinnar á www.midstod.is og í síma 545 5800.

Háskólanemi prófar blindrastaf og nýtur leiðsagnar ráðgjafaUngur maður prófar að nota blindrastaf og aðrir vegfarendur fylgjast með