Ráðgjafi í málefnum daufblindra hefur tekið til starfa
Með lögum um Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga sem tóku gildi 1. janúar 2009 var kveðið á um rétt daufblindra til þjónustu á grundvelli fötlunar sinnar.
Í lögunum segir að „einstaklingur telst daufblindur ef saman fer sjón- og heyrnarskerðing sem takmarkar athafnasemi hans og hamlar þátttöku í samfélaginu í slíkum mæli að hann þarfnast sértækrar þjónustu, laga þarf umhverfi að þörfum viðkomandi eða nýta sérstakan tæknibúnað til að mæta þörfum hans. Daufblinda er sérstök fötlun, en ekki samsetning tveggja fatlana“.
Til að mæta sértækum þjónustuþörfum þeirra sem búa við samsetta heyrnar- og sjónskerðingu hefur Guðný Katrín Einarsdóttir, umferlis- og ADL-kennari, verið ráðin sem samhæfingaraðili í málefnum daufblindra. Hún hefur það m.a. það hlutverk að:
- þróa og byggja upp sértæk þjónustuúrræði fyrir daufblinda einstaklinga.
- leita uppi og skrá daufblinda einstaklinga.
- stuðla að því að daufblindir fái greiningu og þjónustu.
- skipuleggja og standa fyrir námskeiðum fyrir fagfólk, þjónustunet daufblindra einstaklinga og aðstandendur þeirra.
- miðla upplýsingum til daufblindra, fjölskyldna þeirra, stofnana og stjórnvalda.
- gefa daufblindum einstaklingum tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu.
Guðný er með aðsetur að Suðurlandsbraut 12 í húsnæði Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og síminn þar er 562 7702. Einnig er hægt að ná í hana á Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga í síma 545 5800.