Ágætu félagar Blindrafélagsins og aðrir sem þetta heyra eða lesa!

Við undirrituð skipum nefnd sem ætlað er að búa til og gefa út staðla fyrir punktaletur á Íslandi.

Nefndin starfar á vegum Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, en Blindrafélagið á einn fulltrúa í henni.Nefndin hefur á sinni könnu margvísleg verkefni, s.s. að búa til og kynna staðal fyrir 6 og 8 punkta letur, setja upp verklagsreglur varðandi útprentun bóka og annars efnis á punktaletri, innleiða kerfi til að auðvelda stærðfræðikennslu á punktaletri,  kanna upptöku íslensks styttingakerfis o.fl. Forgangsverkefni nefndarinnar er að endurskoða búa til 6 og 8 punkta staðlana og koma þeim í umferð eins fljótt og auðið er. Allir bókstafir og tölustafir eru þekktir og engin áform eru uppi um breytingar þar á en hins vegar eru ýmis tákn og merki á reiki, t.d. at-merkið, prósentumerkið, dollaramerkið, merki fyrir evrur o.s.frv. Mjög nauðsynlegt er að staðla þessi merki og tákn á punktaletri hér á landi.

Til þess að sátt ríki um þessa staðla viljum við vera í sem mestum tengslum við notendur punktaleturs og aðra sem kunna að hafa skoðanir á því. Í því skyni boðum við til fundar um 6 og 8 punkta punktaletursstaðlana mánudaginn 14. desember nk. kl. 17.00. Fundurinn verður haldinn í sal Blindrafélagsins, Hamrahlíð 17, 2. hæð. Til umræðu að þessu sinni verða drög nefndarinnar að 6 og 8 punkta letri fyrir íslensku. 6 punkta letrið verður notað í prentuðu efni og 8 punkta letrið er hugsað bæði sem tölvuletur fyrir punktaletursskjái og önnur jaðartæki og einnig hugsanlega til prentunar í framtíðinni. Fundarmenn munu fá prentað eintak af stöðlunum og geta komið með uppástungur um breytingar eða viðbætur. Ef tími vinnst til verður rættum endurvakningu íslensks styttingakerfis en það er næst á dagskrá nefndarinnar. Notendur punktaleturs eru sérstaklega hvattir til að mæta en einnig eru þeir sem kenna letrið, foreldrar eða aðrir þeir sem þekkja það hvattir til að mæta.

Þeir sem sjá sér ekki fært að mæta á fundinn en vilja fá eintak af stöðlunum til umsagnar, vinsamlegast hafið samband við Ágústu á netfangið ag@blind.is. Staðlarnir verða ekki tilbúnir í prentuðu formi fyrr en um miðjan desember en þá verður hægt að óska eftir þeim.

Virðingarfyllst
Birkir R. Gunnarsson, Ágústa Gunnarsdóttir og Ásdís Þórðardóttir.