Eitt af verkefnum Miðstöðvarinnar er að sjá um yfirfærslu ritefnis á form sem hentar blindum og sjónskertum einstaklingum, s.s. punktaletur og stækkað letur. Þá hefur Miðstöðin komið að útgáfu þreifibóka fyrir blind börn en þreifibækur eru bækur með upphleyptum myndum sem hægt er skoða með fingrunum.

Í ársbyrjun 2010 kom fram sú hugmynd að leita eftir samstarfi við nemendur í 3. bekk í Lindaskóla í Kópavogi og myndmenntakennara þeirra, Sigríði Valdimarsdóttur, um gerð nokkurra bóka af þessu tagi.

Verkefnið hófst með því að ráðgjafar frá Miðstöðinni, ásamt blindri stúlku á grunnskólaaldri, fóru í heimsókn í skólann í janúar 2010. Verkefnið var kynnt fyrir nemendunum og þeim sagt frá bókagerð fyrir blind börn þannig að þeir gætu áttað sig á hvað þarf að hafa í huga þegar slíkar bækur eru búnar til.

Í þessari heimsókn var lesin bók á punktaletri fyrir nemendurna og þeim sagt hvernig myndir þyrftu að líta út svo blind börn gætu skilið þær og þeir upplýstir um æskilega lengd texta og blaðsíðufjölda. Mjög góðar umræður kviknuðu í hópnum og margar spurningar komu frá nemendunum og var þeim svarað eftir bestu getu.

Nemendurnir unnu síðan tveir og tveir saman að gerð bókanna undir handleiðslu Sigríðar myndmenntakennara. Þeir veltu m.a. fyrir sér lögun og áferð mynda, en í bókum fyrir blind börn verður að huga að því að form og áferð mynda gefi blindu barni möguleika á að túlka og skilja myndirnar.

Bókunum var svo skilað til Miðstöðvarinnar í handritsformi þar sem gengið var endanlega frá útgáfu þeirra.

Það var mjög ánægjulegt að vinna að þessu verkefni með nemendum í Lindaskóla en auk þess að semja og myndskreyta bækur fengu þeir tækifæri til að skilja hvernig hægt er nota önnur skynfæri en sjónina til að afla sér upplýsinga, takast á við daglega hluti og stunda nám.

Miðstöðin vill koma á framfæri þakklæti til Sigríðar og allra nemendanna sem tóku þátt í verkefninu. Við hlökkum til að geta boðið blindum börnum að lesa þessar skemmtilegu bækur.

Hér eru nokkar myndir frá verkefninu en því lauk með kynningu í Lindaskóla föstudaginn 21. maí 2010.