Dagana 27. og 28. maí var haldin árleg norræn ráðstefna um punktaletur í Reykjavík.

Þetta er í fyrsta skipti sem ráðstefnan fer fram á Íslandi en hún  hefur verið haldin um áratuga skeið. Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin sá um skipulagningu ráðstefnunnar á Íslandi fyrir hönd Noregs.

Tuttugu og tveir erlendir gestir komu á ráðstefnuna þar sem rædd voru mál sem snerta punktaletursframleiðslu, útlit bóka og kennslu. Miðstöðin telur mikilvægt að fylgjast vel með því sem verið er að gera á  Norðurlöndunum til þess að tryggja að framleiðsla bóka á punktaletri gangi fljótt og vel fyrir sig og að bækur séu framleiddar á vandaðan og hagkvæman hátt.

Efni ráðstefnunar að þessu sinni var þríþætt: Í fyrsta lagi voru ræddar reglur um útlit punktaletursbóka, hvernig tákna eigi blaðsíðuskil, kaflaskil o.s.frv. Í öðru lagi efni sem varða punktaletursnotkun í stærðfræði, en þar hefur víða pottur verið brotinn og mikil þörf er á breytingum og rannsóknum til að auðvelda aðgengi framhalds – og -háskólanema að áreiðanlegu og skýru námsefni á punktaletri. Í þriðja lagi var rædd punktaleturskennsla, einkum fyrir börn, og hvernig best sé að tengja hana almennri kennslu í lestri á leik- og grunnskólastigi.

Ráðstefnan var haldin í húsakynnum Blindrafélagsins í Hamrahlíð 17 og mæltist hún vel fyrir meðal erlendra gesta.

Miðstöðin vonast til að ýmislegt komi út úr þeim umræðum sem fram fóru og að afrakstur þeirra skili sér til notenda  á næstu árum og hlökkum við til að taka frekari þátt í norrænu samstarfi um þessi mikilvægu mál. Vönduð og hröð framleiðsla punktaletursbóka er undirstaða þess að blind ungmenni nái árangri í námi og hafi aðgengi að íslensku jafnt sem erlendu ritmáli og mikilvægt er að nota til þess bestu aðferðir sem völ er á til kennslu.

Norðurlöndin hafa ávallt verið talin standa framarlega í þessum fræðum og því var einstaklega gott að fá þessa gesti til landsins.

Þátttakendur á ráðstefnunni