DAGUR HVÍTA STAFSINS
Vikuna 8. til 15. október 2010 er alþjóðleg sjónverndarvika sem haldin er hátíðleg, um allan heim. Viku þessari lýkur með degi hvíta stafsins þann 15. október, alþjóðlegum baráttudegi blindra og sjónskertra einstaklinga. Þennan dag nota blindir og sjónskertir til að vekja athygli á málstað sínum og m.a. til að kynna hvíta stafinn.
Hvíti stafurinn er mikilvægt og öflugt hjálpartæki sem stuðlar að auknu sjálfstæði og öryggi blindra og sjónskertra einstaklinga og gefur þeim færi á að ferðast um og kynnast umhverfi sínu. Hann gefur sjáandi vegfarendum til kynna að notandi hans sé sjónskertur eða blindur og upplifi því umhverfið og umferðina ekki á sama hátt og sjáandi vegfarandi.
Til að vekja athygli á degi hvíta stafsins, og fyrir hvað hann stendur, munu Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi og Þjónustu – og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, standa fyrir dagskrá í miðbæ Reykjavíkur.
Dagskráin mun hefjast við Kjörgarð á Laugavegi kl 13:00. Óskað verður eftir þátttöku þjóðþekktra einstaklinga í göngu niður Laugaveginn með sjónhermigleraugum. Á leiðinni mun þátttakendum verða falið að leysa af hendi ýmsar athafnir daglegs lífs (ADL) svo sem eins og að t.d. versla.
Með í för verða ráðgjafar/umferliskennarar frá Þjónustu- og þekkingarmiðstöðinni sem leiðbeina þátttakendum á meðan á göngunni stendur. Göngunni lýkur í Oddfellow húsinu, Vonarstræti 10, þar sem stutt dagskrá fer fram og boðið verður upp á kaffiveitingar.
Gert er ráð fyrir að dagskráin í Oddfellow húsinu hefjist kl 14:30.