Robobraille er fyrirtæki sem vakið hefur mikla athygli og fengið fjölmargar viðurkenningar víða um heim. Aðalþjónusta fyrirtækisins gengur út á að skjal sem prenta þarf á punktaletri er sent til Robobraille á heimasíðu fyrirtækisins þar sem skjalið er sett í gegnum sjálfvirkt ferli sem breytir því í punktaletur. Skjalið er svo sent til baka til notandans, yfirleitt innan mínútu, og svo er hægt að prenta skjalið út með pínulitlu forriti sem opnast þegar smellt er á skjalið (að sjálfsögðu þarf að setja forritið upp í fyrsta skipti og stilla 4 hluti þ.e.a.s. pappírsstærð, prentara, character set á prentara og hvar hann er staðsettur). Eftir fyrsta skiptið er þetta hins vegar þannig að smellt er á .pef-skrána og hún prentuð.

Því geta nemendur og kennarar með aðgang að prentara nú sjálfir séð um að prenta út skjöl og annað en þurfa ekki að setjast yfir flóknar leiðbeiningar eða senda skjalið til Miðstöðvarinnar til prentunar og því getur nemandi fengið efnið nær samstundis í hendur.

Þjónustan er ókeypis þeim sem ekki eru að framleiða bækur til sölu og fellur vel að markmiðum okkar að auka sjálfstæði og möguleika nemenda og annarra punktaletursnotenda.

Hægt er að nýta sér þjónustu Robobraillie á vefsíðu fyrirtækisins þar sem er að finna allar nánari upplýsingar um fyrirtækið.