Síðastliðin tvö ár hefur Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga unnið að áhugaverðu verkefni í samstarfi við myndmenntakennara Lindaskóla í Kópavogi og nemendur í 3. bekk. Um er að ræða gerð þreifibóka sem eru aðgengilegar blindum börnum.
Myndmenntakennarinn og nemendur hans fengu fræðslu um bókagerð fyrir blind börn þannig að þeir gætu áttað sig á hvað þarf að hafa í huga þegar slíkar bækur eru búnar til.
Nemendurnir unnu í fámennum hópum að gerð bókanna undir handleiðslu ráðgjafa frá Miðstöðinni og myndmenntakennara skólans. Nemendurnir sömdu stuttar og skemmtilegar sögur og veltu fyrir sér lögun og áferð mynda, sem er forsenda fyrir því að blind börn eigi möguleika á að túlka og skilja myndirnar. Textinn í bókunum er bæði á svartletri og punktaletri.
Það var mjög ánægjulegt að vinna að þessu verkefni með nemendum í Lindaskóla en auk þess að semja og myndskreyta bækur fengu þeir tækifæri til að skilja hvernig hægt er nota önnur skynfæri en sjónina til að afla sér upplýsinga, takast á við daglega hluti og stunda nám.
Miðvikudaginn 4. maí nk. kl. 10:15 verða bækurnar afhentar við formlega athöfn í Lindaskóla.