Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga hefur gefið út í samvinnu við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra tvö ný rit sem eru leiðarvísar um meðfædda daufblindu og síðdaufblindu. Ritin voru gefin út á alþjóðadegi daufblindra 27. júní sem er fæðingardagur Helen Keller.

Ritin eru mikill fróðleikur um málefni fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og eru ætluð til kynningar á lykilþáttum varðandi samþætta sjón- og heyrnarskerðingu vegna tengsla við einstaklinga í starfi, einkalífi eða vegna stefnumörkunar og ákvarðanatöku í þjónustuveitingu. Einnig er efninu ætlað að vera leiðbeinandi grunnur til yfirvalda og stofnana sem þróa og veita daufblindum einstaklingum þjónustu. 

Með daufblindu er átt við alvarlega samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Samkvæmt norrænu skilgreiningunni er daufblinda skilgreind á starfrænan hátt og einstaklingar þurfa því ekki að vera algjörlega heyrnarlausir og blindir til að falla undir skilgreininguna. Flestir sem falla undir hana geta séð eða heyrt eitthvað. Það er samþætting heyrnar- og sjónskerðingar sem skapar mikil vandamál í daglegu lífi, einkum með tillti til tjáskipta, upplýsingaöflunar, rötunar og við ferðir milli staða.

Hægt er að panta afrit af leiðarvísunum á svartletri og punktaletri á midstod@midstod.is . Jafnframt geta ráðgjafar Miðstöðvarinnar veitt frekari upplýsingar ef óskað er í síma 545 5800.

 

Hægt er að skoða ritin rafrænt hér:

Norrænn leiðarvísir um síðdaufblindu – Samþætta sjón- og heynarskerðingu (pdf)

Norrænn leiðarvísir um meðfædda daufblindu – Samþætta sjón- og heyrnarskerðingu (pdf)