Dagana 8.-10. júní fór fram barnanámskeið á vegum miðstöðvarinnar.  Níu börn á aldrinum 7 til 13 ára tóku þátt.  Hér var um þriggja daga námskeið að ræða og ýmislegt gert til að fræða og skemmta börnunum.  Fyrsta daginn var Landhelgisgæslan heimsókn og m.a. þyrla skoðuð hátt og lágt.  Eftir hádegi sama dag var slökkviliðið í Skógarhlíð heimsókn þar sem krakkarnir fengu að sprauta úr brunaslöngu og fara upp með körfubíl svo dæmi séu tekin. 
Á degi tvö voru tekin fram sundföt og strigaskór og var þessi dagur sannkallaður íþróttadagur.  Um morguninn tók Kristín Guðmundsdóttir landsliðsþjálfari á móti hópnum og fræddi þau allt um sundíþróttina.  Einnig spjallaði Eyþór Þrastarson sundkappi við krakkana og sagði þeim hvað sundið hefur gert fyrir hann.  Að sjálfsögðu var farið ofan í laugina og teknar léttar æfingar og hluti af hópnum fór ótakmarkaðar ferðir í rennubrautina og skemmtu sér konunglega.  Í hádeginu bauð Íþróttasamband fatlaðra upp á pizzu og svala og kunnu krakkarnir vel að meta og tóku hraustlega á við pizzu át.  Eftir hádegi var komin tími til að brenna öllum pizzunum sem borðaðar voru í hádeginu og sá Kári Jónsson landsliðsþjálfari fatlaðra um það.  Krakkarnir fengu að prófa spretthlaup, boltakast og langstökk.  Í lok dagsins bauð Kári Krökkunum að keppa á Íslandsmóti fatlaðra sem átti að fara fram helgina eftir barnanámskeiðið.  Fjórir þátttakendur á barnanámskeiðiðnu þáðu boðið og kepptu á mótinu og stóðu sig með mikilli prýði.

Á þriðja og síðasta degi námskeiðsins var farið austur fyrir fjall í rútu og Veiðisafnið á Stokkseyri skoðað.  Krakkarnir fengu að koma við öll dýrin með höndunum.  Páll Reynisson eigandi safnsins tók afar vel á móti okkur og krakkarnir sáu t.d. uppstoppuð ljón, gíraffa og ísbjörn svo dæmi séu tekin.  Eftir að safnið var skoðað í krók og kima var gömul verðbúð skoðuð sem heitir Þuríðarbúð og krakkarnir fengu fræðslu um hvernig fólk bjó við erfiðar aðstæður fyrr á öldum.  Á heimleiðinni var komið við í fjöru og krakkarnir fengu að busla í sjónum og vakti það mikla kátínu hjá þeim. 

Barnanámskeið hafa verið haldinn árlega oftast í byrjun sumars og verið vel sótt.  Þarna geftst börnunum tækifæri til að kynnast innbyrðis og að prófa og læra nýja hluti.  Það er mat okkar sem komu að námskeiðinu að þessu sinni að vel hefur tekist til og vonandi verður annað námskeið að ári liðnu.

Halldór Sævar Guðbergsson