Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga hefur það hlutverk að úthluta leiðsöguhundum samkvæmt reglugerð um úthlutanir hjálpartækja.  Á Íslandi eru nú 5 leiðsöguhundar en 4 þeirra voru keyptir af Blindrafélaginu árið 2008 frá Noregi. Þörf er á fleiri leiðsöguhundum og hefur Miðstöðin sett af stað verkefni til að kaupa og þjálfa leiðsöguhunda á Íslandi í stað þess að kaupa þá erlendis frá. Ráðinn hefur verið hundaþjálfari til verkefnisins og keyptir hafa verið 2 hvolpar til þjálfunar. Verið er að leita að fleiri hvolpum og unghundum en áætlað er að skila 2 leiðsöguhundum á ári. Verkefnið er dýrt og yfirgripsmikið en mikill sparnaður felst í því að kaupa og þjálfa hunda á Íslandi í stað þess að kaupa hundana erlendis. Styrkurinn frá Blindrafélaginu hefur verið notaður til að kaupa hvolpana Birtu og Bjart auk þess sem styrkurinn hefur verið notaður til að kaupa búnað fyrir hundana, tryggingar og aðstöðu í nýju leiguhúsnæði. Jafnframt verður styrkurinn notaður til að kaupa tvo unghunda.

Auk styrksins hafa Blindrafélagið og Miðstöðin gert með sér samkomulag þar sem Blindrafélagið hefur fært Miðstöðinni núverandi 4 leiðsöguhunda til eignar, umsýslu, þjálfunar og eftirlits og mun því Miðstöðin framvegis sjá alfarið um málefni leiðsöguhunda á Íslandi með stuðningi og í samstarfi við Blindrafélagið.  Miðstöðin þakkar Blindrafélaginu kærlega fyrir þennan góða stuðning og gott samstarf um þetta mikilvæga verkefni.