Frakkinn Louis Braille fæddist í janúar 1809. Þriggja ára missti hann sjónina af slysförum. Braille gekk í skóla með sjáandi börnum en 10 ára gamall hóf hann nám við blindraskólann í París. Við skólann voru notaðir venjulegir bókstafir sem voru upphleyptir. Braille varð ljóst að hentugra letur varð að finna. Tólf ára kynntist hann letri Barbiers sem ætlað var til nota í hernum og átti að vera nothæft í myrkri. Punktaletrið var byggt úr 12 punktum í tveimur röðum, 6 í hvorri röð. Puntunum mátti raða í kerfi sem passaði vel við flest orð franskrar tungu. Punktaletrið var jafnflókið og það var frumlegt enda breytti Barbier því hvað eftir annað. Braille reiknaði út að ef punktunum væri fækkað niður í 6 væri það ekki einungis nóg til að tákna allt stafrófið heldur einnig lestrartákn, styttingar, nótur, stærðfræðitákn o.fl. Braille byggði kerfið á eftirfarandi hátt: Ferhyrningur með 6 punktum í tveimur lóðréttum röðum, þ.e. 3 í hvorri. Táknin má nema með fingurgómunum. Með þessum 6 punktum má setja saman 63 mismunandi tákn.
 

Hvernig er punktaletur lesið?

Punktaletur er lesið með fingrunum og skynjast í gegnum hreyfingu handanna með jafnri og hraðri hreyfingu yfir punktana.

Bestu lesararnir nota báðar hendur við lesturinn í samspili þar sem vinstri höndin les vinstri hlutann af síðunni (línunni) meðan hægri höndin mætir þeirri vinstri á miðjunni og les línuna út. Góðir punktaleturslesarar hafa góðar fínhreyfingar og greina vel mismunandi tákn með snertiskyninu. Þeir lesa með léttu og afslöppuðu þrykki og nota hendurnar lóðrétt yfir punktana, lesa með báðum höndum saman, með flesta fingur á línunni. 

Meiri upplýsingar um punktaletur