Námskeið verður haldið 14. febrúar 2012 hjá Endurmenntun Háskóla Íslands í samvinnu við Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.
Námskeiðið er ætlað fagfólki innan heilbrigðisstofnana, s.s. hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, sjúkraþjálfurum, iðjuþjálfum, þroskaþjálfum og stuðningsfulltrúum sem starfa með blindum og sjónskertum einstaklingum.
Námskeiðslýsing:
Markmið námskeiðsins er að kynna helstu augnsjúkdóma og fjalla um hjálpartæki, athafnir daglegs lífs og leiðsögutækni. Sýnd verða ýmis hjálpartæki sem auðvelda blindum og sjónskertum athafnir daglegs lífs, svo sem hvíti stafurinn, stækkunargler og önnur stækkunartæki. Fjallað verður um mikilvægi góðs aðgengis svo sem lýsingu, andstæða liti og merkingar. Leiðsögutækni verður kynnt og þátttakendur fá að prófa hvernig best er að leiða aðra og að láta leiða sig. Farið verður yfir samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, afleiðingar hennar og áhrif á daglegt líf. Áhersla verður lögð á að dýpka þekkingu þátttakenda á málefnum blindra og sjónskertra með það að markmiði að gera þá hæfari til að sinna þjónustu við blinda og sjónskerta einstaklinga.
Kennsla/umsjón: Guðmundur Viggósson augnlæknir, Guðný Katrín Einarsdóttir ráðgjafi og Vala Jóna Garðarsdóttir deildarstjóri
Hvenær: 14. febrúar 2012 kl. 9:00-16:00
Námskeiðsgjald: 13.500 kr.
Umsóknarfrestur er til 7. febrúar 2012
Skráning fer fram hjá Endurmenntun Háskóla Íslands – Dunhaga 7, 107 Reykjavík Sími: 525-4444 – Fax: 525-4080 – Netfang: endurmenntun@hi.is