Dóra og Karl, nýjar íslenskar talgervilsraddir frá pólska fyrirtækinu Ivona, verða kynntar opinberlega miðvikudaginn 15. ágúst kl. 15:00 í Norræna húsinu. Það var á vordögum 2010 sem stjórn Blindrafélagsins ákvað að hafa forgöngu um smíði á nýjum íslenskum talgervli (Text To Speach Engine eða TTS,) sem stæðist samanburð við það besta sem þekkist í erlendum talgervilsröddum. Nú er þeirri smíði lokið og talgervillinn tilbúinn til notkunar í skjálesarabúnað, sem textalesari, sem vefsíðulesari, í Android síma, til notkunar í símkerfum, í hraðbönkum og ýmsum öðrum stafrænum samskiptabúnaði. Þó svo að smíðinni sé nú formlega lokið munu þróun og viðbætur á talgervlinum vera í stöðugu ferli.
Í íslenska talgervillinum eru tvær raddir, kvennmannsröddin Dóra og karlmannsröddin Karl. Það var pólska fyrirtækið Ivona sem annaðist smíðina.
Talgervlinum verður úthlutað án endurgjalds til þeirra sem, sökum fötlunar eða skerðinga, geta ekki lesið með hefðbundnum hætti. Skila þarf inn vottorði um að viðkomandi sé annaðhvort í þjónustu hjá Blindrabókasafni Íslands eða Þjónustu-og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Þeir sem ekki eiga rétt á endurgjaldslausri úthlutun geta keypt sér lesarann og eigendur heimasíðna geta keypt afnot af veflesaranum, ásamt því sem önnur verkfæri eru einnig fáanleg. Auk þess er hægt að fá beta útgáfu af Dóru fyrir Android síma frítt. Sjá frekar á www.ivona.com
Verkefnisstjóri verkefnisins er Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins. Yfirumsjón með málfræðilegum þætti verkefnisins er í höndum Eiríks Rögnvaldssonar, prófessors í íslensku við Háskóla Íslands og yfirumsjón með aðgengisþætti verkefnisins er hjá Birki Rúnari Gunnarssyni tölvunarfræðingi og félaga í Blindrafélaginu. Sérstakur verndari verkefnisins er frú Vigdís Finnbogadóttir.
Hér má sjá frekari upplýsingar um verkefnið