Í dag undirritaði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra samning við Blindrafélagið um að nota Ivona veflesara Blindrafélagsins til að lesa efni allra vefsíðna Stjórnarráðs Íslands. Veflesarinn býður upp á íslenskan upplestur á texta á íslenskum vefsíðum.

Samningurinn er liður í því að hrinda í framkvæmd stefnumörkun ríkisstjórnar Íslands frá 2012 um upplýsingaaðgengi. Samningurinn er mikilvægt skref í átt til þess að jafna aðgengi að upplýsingum fyrir þá mörg þúsund einstaklinga sem ekki geta lesið með hefðbundnum hætti vegna blindu, sjónskerðingar, lesblindu eða annarra fatlana.

Við athöfnina óskaði forsætisráðherra öllum hlutaðeigandi til hamingju um leið og hún lýsti ánægju sinni með bætt aðgengi að upplýsingum Stjórnarráðsins. Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins sagði það ánægjulegt hversu gott samstarf hefði náðst við starfsmenn Stjórnarráðsins við að hrinda stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í framkvæmd.