Microsoft hefur nýverið gefið út nýtt stýrikerfi undir nafninu Windows 8. Þetta stýrikerfi er mikil bylting hvað notkun varðar og felst breytingin aðallega í aukinni sjónrænni áherslu. Kerfið er hannað með snertiskjá í huga og gamalkunnir Windows þættir eins og Ræsa valmyndin (Start menu) eru ekki lengur til staðar.
Eins og er keppast framleiðendur Zoom Text og Supernova við að samhæfa forrit sín við Windows 8 en hafa enn ekki náð þeim áfanga að hægt sé að nota forritin í stýrikerfinu. Við mælum því eindregið gegn því að sjónskertir og blindir einstaklingar fjárfesti í Windows 8 eins og staðan er í dag. Ef þú hefur keypt vél með Windows 8 þarftu að útvega þér Windows 7 til þess að hún verði nothæf.
Nvda og nýjasta Jaws er nothæft á Windows 8 eftir því sem við best vitum. Við eigum hinsvegar eftir að sannreyna það hér heima.
Í framtíðinni verður Windows 8 væntanlega aðgengilegt og nothæft fyrir blinda og sjónskerta, þangað til mælum við með Windows 7. Ef spurningar vakna varðandi þetta eða annað tengt hjálparforritum hafið samband við tölvuráðgjöfina.
Rósa María Hjörvar, fagstjóri.