Afmælisdagur Helen Keller 27. júní er alþjóðlegur baráttudagur fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Hann verður nú haldinn hátíðlegur í þriðja sinn hér á landi.

Dagskráin verður í sal Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17 og hefst kl. 16 með dagskráratriðum sem félagsmenn í Fjólu, félagi fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu hafa veg og vanda að. Þá tekur Søren Holmgren við með einn af sínum stórskemmtilegu fyrirlestrum.

Søren Holmgren er tvöfaldur Ólympíugullhafi í markbolta og hefur mikla reynslu úr keppnisíþróttum, þar sem hann bæði sem einstaklingur og hluti af liði hefur náð markmiðum sínum. Hann er menntaður tölvunarfræðingur og hefur unnið við hugbúnaðarþróun, menntunarmál, stjórnun og við sölustörf. Ástæða þess árangur sem Søren hefur náð er sú ákvörðun hans á unglingsárum að láta ekkert hindra sig eða stöðva við það að vera virkur og láta drauma sína rætast. Grunnhugsun hans er að allt sé mögulegt. Auk þess að vera vinsæll fyrirlesari og rithöfundur er hann virkur leiðbeinandi í jafningjafræðslu t.d. með blindum börnum.

Í fyrirlestrinum fjallar Søren um þann hugsunarhátt og heimspeki sem liggur að baki þeim árangri sem hann hefur náð. Hann deilir með okkur eigin reynslu og segir okkur hvernig hann yfirfærir reynslu í keppnisíþróttum yfir á aðstæður í daglegu lífi.

Fjóla býður alla áhugasama velkomna í Hamrahlíðina til að njóta dagsins með okkur. Þeir sem vilja kynna sér fyrirfram hvað Sören hefur fram að færa er bent á heimasíðu hans, http://www.itoi.dk.

Søren er þekktur fyrir að halda skemmtilega fyrirlestra og fær fólk til að hugsa hluti í daglegri tilveru sinni á nýjan hátt.

Fyrirlesturinn er á dönsku, hann verður radd- og rittúlkaður á íslensku og túlkaður á táknmál. Tónmöskvi er á staðnum.

Að dagskrá lokinni verða boðið upp á léttar veitingar.

Stjórn Fjólu.