Fimmtudaginn 10. október kl. 17:00, á alþjóðlegum sjónverndardegi, verður fræðslufundur þar sem kynnt verður ný tilraunameðferð við RP, sem fyrirhugað er að setja i gang hér á landi. Fundurinn verður í húsi Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17.

Annar fimmtudagur í október ár hvert er alþjóðlegur sjónverndardagur. Um nokkurra ára skeið hafa Blindrafélagið og Lionshreyfingin á Íslandi staðið sameiginlega að fræðslufundi á þessum degi tengdum málefni dagsins.

Í ár mun verða kynning á nýrri tilraunameðferð við RP (Retinitis Pigmentosa) sem sett hefur verið upp í nokkrum borgum í Evrópu og er í undirbúningi að verði einnig boðin á Íslandi. Helgi Hjörvar er nú þegar þátttakandi í tilraunmeðferð í Þýskalandi og hefur Þór Eysteinsson, prófessor í lífeðlisfræði, aðstoðað hann. Stuðningur til sjálfstæðis, styrktarsjóður Blindravinafélagsins og Blindrafélagsins hefur styrkt Helga til þátttöku í meðferðinni.

Til að hægt verði að bjóða þessa tilraunmeðferð hér á landi  hefur Blindrafélagið ákveðið að gefa augndeild Landsspítala Háskólasjúkrahúss tæki til þessara meðferðar. Meðferðin felur í sér rafertingu í gegnum hornhimnuna. Tilgangurinn er að erta ljósnæmar frumur í sjónhimnunni í þeirri von að þær vakni úr dvala. Standa vonir til þess að þannig megi draga úr eða jafnvel stöðva hrörnunarferli þessara ljósnæmu fruma, sem er það sem að gerist í RP.

Helgi og Þór munu kynna þessa tilraunameðferð á fræðslufundi sem verður haldinn fimmtudaginn 10. október kl 17:00 í húsi Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17.

RP

RP eða Retinitis Pigmentosa er flokkur arfgengra hrörnunarsjúkdóma í sjónhimnu, sem oftast lýsir sér fyrst í náttblindu og síðar ört minnkandi sjónsviði. Þrátt fyrir miklar rannsóknir á undanförnum árum hafa engar meðferðir ennþá komið fram sem beita má gegn þessum sjúkdómum. RP augnsjúkdómar eru algengasta orsök alvarlegrar sjónskerðingar og blindu hjá ungu fólki utan þróunarlandanna.

Nánar um RP (PDF-skjal)