Nýverið birtist grein á vefriti Öryrkjabandalagsins um gerð  lesefnis fyrir blinda og sjónskerta nemendur.

 

Á Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga er starfandi framleiðsludeild sem framleiðir námsefni fyrir blinda og sjónskerta nemendur á öllum skólastigum. Eins og gefur að skilja geta blindir og sjónskertir oft ekki nýtt sér þær hefðbundnu námsbækur sem í boði eru í bókabúðum landsins. Því þarf að aðlaga efnið að þörfum nemendanna og þarfir þeirra eru misjafnar. Efnið er gert aðgengilegt fyrir hvern einstakling eins og honum best hentar. Það getur til að mynda verið á punktaletri, stækkuðu letri og á tölvutæku formi.

Mismunandi aðferðir við lestur

Alblindir nemendur nota oftast skjöl á tölvutæku formi og annaðhvort hlusta á efnið með aðstoð talgervils eða nota punktaletursskjá sem þeir tengja við tölvu. Sjónskertir nemendur notast við ýmsar aðferðir við lestur námsbóka. Margir geta enn nýtt sjónina til lesturs en flestir þurfa að geta stækkað letrið, breytt bakgrunni eða litum á letri sem er þá gert í tölvuforriti. Aðrir sjónskertir nemendur nota talgervil og sumir blanda þessu saman með því að lesa textann samhliða því að hlusta á talgervil. Að auki má nefna að framleiðsludeild Miðstöðvarinnar getur útvegað hljóðbækur frá hljóðbókasöfnum Norðurlandanna í gegnum Hljóðbókasafn Íslands.

Blindum og sjónskertum nemendum fjölgað

Á síðustu árum hefur blindum og sjónskertum nemendum fjölgað mikið í háskólum landsins. Við stofnun Miðstöðvarinnar árið 2009 var aðeins einn nemandi sem fékk námsbækur frá framleiðsludeildinni í háskólanámi en árið 2014 voru þeir orðnir 11 talsins. Þessa miklu aukningu blindra og sjónskertra háskólanema má að hluta til rekja til þess að Þjónustu- og þekkingarmiðstöð var stofnuð árið 2009 en samkvæmt lögum er markmið hennar að auka möguleika blindra og sjónskertra til þátttöku og virkni á öllum sviðum samfélagsins, til dæmis með áherslu á stuðning til náms. Auk þess hefur samstarf Miðstöðvarinnar við námsráðgjafa háskólanna aukist til muna.

Blindir og sjónskertir háskólanemendur stunda afar fjölbreytt nám og má þar meðal annars nefna tölvunarfræði, lögfræði, félagsfræði, guðfræði, stjórnmálafræði, þýðingarfræði, fötlunarfræði, næringarfræði og heimspeki. Nemendurnir stunda nám við bæði Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.

Helga Björg Ragnarsdóttir, sérfræðingur í gerð lesefnis.

Elín Marta Ásgeirsdóttir, náms- og starfsráðgjafi og sérfræðingur í gerð lesefnis.