Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga hefur gert úttekt á stöðu atvinnumála hjá blindum og sjónskertum á Íslandi.

Þar kemur í ljós að að minnsta kosti 47% blindra og sjónskertra á aldrinum 18-67 ára stundar vinnu og 13% eru í námi. Hlutfall blindra og sjónskertra í vinnu virðist vera mun hærra hér á landi en í öðrum Evrópulöndum og í Bandaríkjunum. Karlar virðast vera í mun meiri virkni en konur, en tæp 60% þeirra eru í vinnu en 32% kvenna.

Athygli er vakin á að í nýjasta tölublaði Víðsjár, tímariti Blindrafélagsins sem kemur út í vikunni, er fjallað um málefnið. Þar eru einnig viðtöl við þrjá blinda og sjónskerta einstaklinga á mismunandi aldri sem eru á vinnumarkaðnum. Störfin sem þau sinna eru afar ólík en þau vinna í banka, hjá símafyrirtækinu Vodafone og fiskvinnslu. Einnig er rætt við yfirmenn þeirra.

Víðsjá má sjá á heimasíðunni Blindrafélagsins en umfjöllunin er á síðum 20-24.

Þá hefur Þjónustu- og þekkingarmiðstöð gefið út skýrslu um úttektina.