Stofnaður hefur verið sjóður til minningar um Jón Finn Kjartansson, sem fæddist árið 1973 og lést aðeins 18 ára að aldri árið 1991. Minningarsjóðurinn hefur fengið nafnið Gefum blindum augum sjón og er stofnandi sjóðsins dánarbú Kjartans Magnússonar, sem var faðir Jóns Finns. Markmið sjóðsins er að stuðla að framþróun og nýjungum í augnlækningum með því að veita læknum og vísindamönnum styrk úr sjóðnum sem leita sér formlegs framhaldsnáms í augnlækningum erlendis eða leggja stund á vísindarannsóknir á því sviði.

Fyrsta úthlutun hefur farið fram en alls bárust sjóðnum fimm mjög góðar umsóknir. Ákveðið var að veita Davíð Þór Bragasyni, umsjónardeildarlækni við augndeild Landspítala Háskólasjúkrahúss, styrk vegna rannsóknarverkefnisins „Endurbætt aðferð til súrefnismælinga í sjónhimnuæðum“ samanber stutt lýsing á rannsóknarverkefninu:

Í þróun er endurbætt aðferð til súrefnismælinga í sjónhimnuæðum sem byggir á tækni Oxymap (Oxymap ehf., Reykjavík). Aðferðin styðst við sérhannað reiknilíkan af lífeðlisfræði blóðflæðis og súrefnisflutnings. Fyrstu niðurstöður benda til að nýja aðferðin geti gefið nákvæmari upplýsingar um súrefnisbúskap sjónhimnu og geri kleift að mæla smærri æðar en áður var mögulegt.

Umsjón með sjóðnum hefur Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Í stjórn sjóðsins sitja Guðmundur Viggósson, augnlæknir sem er formaður sjóðsins, Magnús Karl Magnússon, forseti Læknadeildar Háskóla Íslands, Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og Huld Magnúsdóttir, forstjóri Miðstöðvarinnar.