Vegna sólmyrkva sem verður 20. mars næstkomandi ber að árétta að það er HÆTTULEGT að horfa á sólmyrkva án sólmyrkvagleraugna!
Sólin er öflugur ljósgjafi og sendir frá sér bæði sýnilegt og ósýnilegt ljós sem getur valdið miklum skaða á yfirborði augnanna og sjónhimnunni sem þekur augnbotninn. Við notum sólgleraugu til að vernda yfirborð augnanna og vitum að við eigum ekki undir neinum kringumstæðum að horfa beint í sólina.
Ef við horfum beint í sólina án viðeigandi hlífðarbúnaðar getur það valdið óendurkræfum skaða á sjónhimnu augans og þá sérstaklega í miðjugróf augans. Þar eru ljósnæmar frumur sem gera okkur kleift að greina smáatriði og ef þær skemmast þá orsakar það alvarlega sjónskerðingu, t.d. getur lestur orðið erfiður, stjórnun ökutækja og erfitt getur orðið að greina andlit.
Ósjálfráð viðbrögð eins og að blikka augunum eða líta undan, forða okkur frá því að horfa beint í sólina. Við sólmyrkva hins vegar virðist fólk gleyma hversu hættuleg sólin er og bælir ósjálfráðu viðbrögðin og horfir lengur en ella eða jafnvel starir í sólina.
Hvernig er hægt að fylgjast með sólmyrkva?
Til að fylgjast með sólmyrkva er nauðsynlegt að nota viðeigandi hlífðarbúnað, svo sem sólmyrkvagleraugu. Öll börn í grunnskóla fá sólmyrkvagleraugu og er nauðsynlegt að brýna fyrir þeim að horfa í gegnum gleraugun allan tímann. Geislar sólarinnar valda skemmdum á örstuttum tíma. Upplýsingar um sölu á sólmyrkvagleraugum er t.d. að finna á vefsíðunni stjornufræði.is.