Þjónustu- og þekkingarmiðstöð tekur í samvinnu við Háskóla
Íslands þátt í stóru verkefni fimm Evrópulanda sem miðar að því að búa
til skynjunarbúnað fyrir blinda einstaklinga.

„Verkefnið gengur út á að hanna búnað fyrir blinda
einstaklinga til að þeir geti skynjað hluti úr umhverfinu. Í stað þess
að fá upplýsingar með sjóninni gefur tækið okkur upplýsingar um
umhverfi, annars vegar með hljóði og hins vegar snertingu, m.a.
titringi. Hugmyndin er að búnaðurinn gefi umhverfisskynjun svo
auðveldara verði fyrir blinda að komast leiðar sinna,“ segir Eyþór
Kamban Þrastarson, verkefnisstjóri Sound of Vision hjá Þjónustu- og
þekkingarmiðstöð.   

Um 600 milljóna króna styrkur hefur fengist frá ESB til
verkefnisins og samstarfsaðilar erlendis eru hátæknifyrirtæki og
háskólar í Póllandi, Ungverjalandi, Rúmeníu og Slóveníu. Hér á landi eru
það sálfræðideild, iðnaðar- og vélaverkfræðideildir og
tölvunarfræðideild sem koma að verkefninu fyrir hönd HÍ sem er í
samstarfi við Þjónustu- og þekkingarmiðstöð.

Kortleggur þörfina hjá notendum 

Eyþór starfar fyrir hönd Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar
að verkefninu og um þessar mundir sér hann um að leggja spurningalista
fyrir notendur. „Með þessu erum við að kortleggja þörfina fyrir slíkan
búnað og gefa mynd af því hvað á að leggja áherslu á í sambandi við
búnaðinn,“ segir Eyþór og bætir við að síðar verði prófanir fyrir fólk
sem mun geta nýtt sér búnaðinn og hann muni starfa við þær. Hann segir
mikilvægt að hlustað sé á notendur til að búnaðurinn virki sem best
fyrir þá sem munu nota hann í framtíðinni.

Hann segir mikinn slagkraft í verkefninu nú og að vel hafi
gengið. „Ég er að hringja út í notendur og leggja fyrir þá
spurningalista. Fólk tekur þessu vel og hingað til hefur enginn neitað
mér um svör,“ segir Eyþór að lokum og brosir.

Umfjöllun Fréttablaðsins um verkefnið á pdf formi. 

Heimasíða Sound of Vision verkefnisins.