Leiðsöguhundarnir Zören og Oliver voru sallarólegir þegar þeir voru
afhentir nýjum félögum við hátíðlega athöfn í sal blindrafélagsins í
gær. Huld Magnúsdóttir, forstjóri Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar,
afhenti þeim Lilju Sveinsdóttur og Svanhildi Önnu Sveinsdóttur hundana
en Zören mun búa með Svanhildi á Akureyri og Oliver með Lilju í
Reykjavík. Þeir bræður kipptu sér ekkert upp við umstangið og athyglina
sem þeir fengu og stóðu sig með prýði bæði í myndatökum og
sjónvarpsviðtölum.  

Fulltrúar Lions hreyfingarinnar á Íslandi afhentu við sama tilefni
Blindrafélaginu afrakstur söfnunarinnar, Rauðu fjaðrarinnar, sem fram
fór í vor en alls söfnuðust rúmlega fimmtán milljónir. Bergvin Oddson,
formaður Blindrafélagsins, tók við ávísun frá fulltrúum Lions.

Þá var stofnuð sérstök leiðsöguhundadeild innan Blindrafélagsins og kosið í stjórn hennar.