Fyrstu eintök byrjendaefnis í stærðfræði fyrir blind og verulega sjónskert börn voru afhent fulltrúum Rannís með formlegum hætti á Þjónustu- og þekkingarmiðstöð í gær, fimmtudag. Efnið var unnið með styrk úr þróunarsjóði námsgagna hjá Rannís og stuðlar að því að blindir og sjónskertir nemendur hafi aðgengi að námsefni til jafns við aðra nemendur. 

Við gerð efnisins var unnið út frá Sprota 1 a og b sem er kennsluefni í stærðfræði fyrir fyrsta bekk sem er notað í flestum grunnskólum. Efnið í Sprota er sett fram á mjög myndrænan hátt sem hentar yngstu nemendunum vel en aftur á móti ekki blindum og mikið sjónskertum nemendum.  Í staðinn fyrir myndirnar og textann í Sprota eru upphleyptar myndir, hlutir og punktaletur í nýja efninu. Efnið hefur nú þegar verið tekið í notkun í einum skóla.  

Efnið tók um ár í vinnslu, að sögn þeirra Benjamíns Júlíussonar, fagstjóra framleiðsludeildar, og Helgu Bjargar Ragnarsdóttur, sérfræðings í gerð lesefnis, hjá Miðstöð en þau höfðu veg og vanda af gerð efnisins ásamt Elfu Hermannsdóttur, þjónustustjóra Miðstöðvar. „Þetta hefur verið skemmtilegt. Við þurftum mikið að hugsa út fyrir kassann og sífellt að finna leiðir til að koma myndrænni stærðfræðikennslu til skila.“

Í staðinn fyrir myndir eru til dæmis notuð leikföng úr plasti, dýr, ávextir og litlir karlar og öll fyrirmæli og leiðbeiningar eru á punktaletri. „Unnið var út frá þeirri hugmyndafræði að nemandinn gæti unnið sjálfstætt með efnið eins og aðrir nemendur og þyrfti ekki aðstoð frá öðrum við að nota það,“ að sögn Helgu og Benjamíns sem segja vel koma til greina að unnið verði stærðfræðiefni fyrir blind og mikið sjónskert börn í öðrum bekk.  

Á myndinni má sjá fulltrúa Rannís og Miðstöðvar með eintak af stæðrfræðiefninu.