Stærðfræðiefni fyrir blind og sjónskert börn og Kringluferð félagsmanna í Blindrafélaginu verður meðal annars á dagskrá alþjóðadags hvíta stafsins sem er á morgun, 15. október. Tilgangur dagsins er að vekja athygli á hvíta stafnum, þýðingu hans fyrir notandann og umhverfið og einnig að vekja athygli á umferli blindra og sjónskertra einstaklinga.

Fyrstu eintök byrjendaefnis í stærðfræði fyrir blind og verulega
sjónskert börn verða afhent fulltrúum Rannís á Þjónustu- og
þekkingarmiðstöð en efnið var unnið með styrk úr þróunarsjóði námsgagna
hjá Rannís. Slíkt efni stuðlar að því að blindir og verulega sjónskertir
nemendur hafi aðgengi að námsefni til jafns við aðra nemendur.  

Í tilefni dagsins verður Blindrafélagið með opið hús og kaffisamsæti í húsnæði Blindrafélagsins kl. 15 og síðan munu félagar í Blindrafélaginu ganga úr Hamrahlíð 17 yfir í Kringluna klukkan 16. Í Kringlunni verða blindir og sjónskertir á ferð með hvíta stafinn en hann er eitt þekktasta og mest notaða hjálpartæki blindra og sjónskertra.