Þrír fengu styrk til náms og rannsókna í augnlækningum 

Þrír umsækjendur fengu á dögunum styrk úr sjóðnum Gefum blindum augum sjón. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð hefur umsjón með sjóðnum en markmið hans er að stuðla að framþróun og nýjungum í augnlækningum með því að styrkja lækna og vísindamenn sem leita sér formlegs framhaldsnáms í augnlækningum erlendis eða leggja stund á vísindarannsóknir.

Styrk hlutu Ásbjörg Geirsdóttir, Davíð Þór Bragason og Jóhann R. Guðmundsson. Ásbjörg er doktorsnemi í augnlækningum við Háskóla Íslands og sérnámslæknir við St Eriks Ögonsjukhus í Stokkhólmi í Svíþjóð. Hún vinnur að rannsóknarverkefni sem ber heitið Súrefnisbúskapur sjónhimnu og augnbotnahrörnun sem hún hefur unnið undir handleiðslu Einars Stefánssonar prófessors. Davíð er sérnámslæknir við augndeild Landspítala-háskólasjúkrahúss og Jóhann er augnlæknir við St. Eriks Ögonsjukhus í Stokkhólmi í Svíþjóð, en báðir fengu þeir styrk til að fara til Chennai á Indlandi í þjálfun við augasteinsaðgerðir.   

Þetta var önnur úthlutun úr sjóðnum en hann var stofnaður í minningu Jóns Finns Kjartanssonar sem fæddist árið 1973 og lést aðeins 18 ára að aldri árið 1991. Stofnandi sjóðsins er dánarbú Kjartans Magnússonar sem var faðir Jóns Finns.

Í stjórn sjóðsins sitja Guðmundur Viggósson augnlæknir sem er formaður stjórnar, Magnús Karl Magnússon, forseti læknadeildar Háskóla Íslands, Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala-háskólasjúkrahúsi og Huld Magnúsdóttir, forstjóri Miðstöðvarinnar.