Miðstöð hlaut styrk frá Umhyggju

Umhyggja, félag langveikra barna, veitti á dögunum Þjónustu- og þekkingarmiðstöð styrk sem verður nýttur til kaupa á tæknibúnaði fyrir blind og sjónskert börn. Umhyggja er félag sem vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra en félagið er 35 ára í ár. Ragna K. Marinósdóttir, framkvæmdastjóri Umhyggju, afhenti Þorbjörgu Gunnarsdóttur, forstjóra Miðstöðvar, styrkinn.    

Á Miðstöðinni er veitt ráðgjöf við val á tækjum og tæknibúnaði og er því mikilvægt að stofnunin sé sem best búin þeim tækjum og nýjungum sem völ er á. Með stuðningi Umhyggju mun Miðstöð nú geta bætt tækjakost sinn enn frekar. Styrkurinn verður nýttur til kaupa á tæknibúnaði fyrir blind og sjónskert börn, meðal annars nýjustu útgáfu af iPad og kennslutæki sem nefnist LightAide.

Hinn nýi iPad sem keyptur verður á Miðstöð er með stærri skjá en fyrri útgáfur eða 12,9″ stærð og með mikla upplausn sem gefur skýra og góða mynd. Að auki styður Ipad pro
hinn nýja Apple Pencil sem virkar eins og blýantur. Með honum er meðal annars hægt að skrifa beint inn á skjöl eins og skólabækur á rafrænu formi sem hægt er að stækka  upp í spjaldtölvunni. 

LightAide er tæki sem er með gagnvirkum skjá og styður vel við þjálfun í læsi og stærðfræðihugtökum.