Samningurinn um réttindi fatlaðs fólks fullgiltur af hálfu Íslands

Alþingi samþykkti á dögunum að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en markmið hans er að er að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra.

Alþingi samþykkti samhljóða þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá ályktaði Alþingi jafnframt að valkvæður viðauki við samninginn skuli einnig fullgiltur fyrir árslok 2017. Samningurinn og valkvæði viðaukinn voru undirritaðir af hálfu Íslands 30. mars 2007. 

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir ákvörðun Alþingis sem samþykkti einróma að fullgilda samninginn vera langþráðan áfanga og mikilvægt skref fyrir áframhaldandi vinnu við að bæta stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu, að því er fram kemur í frétt á vef Velferðarráðuneytisins.

Fullgilding samningsins kallar á ýmsar lagabreytingar þannig að íslensk löggjöf uppfylli til fulls ákvæði samningsins. Á síðustu misserum og árum hafa verið gerðar breytingar á íslenskri löggjöf til að undirbúa fullgildinguna og ýmsar nauðsynlegar breytingar eru í undirbúningi eða komnar vel á veg, að því er fram kemur í fréttinni.

•    Unnið er að gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks sem birt verður til     umsagnar innan skamms.
•    Drög að frumvarpi til nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk með sérstakar þjónustuþarfir og drög að frumvarpi til breytinga á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga voru birt til umsagnar á vef velferðarráðuneytisins í júlí síðastliðnum.
•    Vinna við smíði frumvarps sem kveður á um jafna meðferð á vinnumarkaði er á lokastigi og stefnt að því að birta það til umsagnar á næstunni, en einnig er fjallað um stöðu fatlaðs fólks á vinnumarkaði í vinnumarkaðsstefnu sem kynnt var í júní 2015.

•    Af hálfu innanríkisráðuneytisins hefur verið unnið að undirbúningi þess að koma á fót sjálfstæðri mannréttindastofnun og voru drög að frumvarpi þess efnis lögð fram til kynningar í sumar. Frumvarpið er mikilvægur liður í því að stjórnvöld geti fullgilt samningin um réttindi fatlaðs fólks.

Tengill á frétt á vef Velferðarráðuneytisins.