Hlusta
Huld Magnúsdóttir hefur látið af störfum sem forstjóri Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar og tekið við starfi framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Huld tók við starfi forstjóra Miðstöðvarinnar árið 2009.

Á þessum árum hefur mikið uppbyggingarstarf átt sér stað. Hugmyndafræði Miðstöðvarinnar byggist á því að þjónusta við notendur, aðstandendur, kennara og aðra úr nærumhverfinu fari fram í því umhverfi sem notandinn er í og á hans forsendum, svo sem inni á heimili, skóla eða vinnustað. Þá hefur verið lögð áhersla á að sýna frumkvæði að því að hafa samband við einstaklinga að fyrra bragði til að tryggja þeim þjónustu og ráðgjöf. Árið 2014 fékk Miðstöðin viðurkenningu fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu fyrir þessa hugmyndafræði.

Á þessum tímamótum afhenti Sigþór Hallfreðsson, formaður Blindrafélagsins, Huld Gulllampann, æðstu viðurkenningu Blindrafélagsins, sem veitt er þeim einstaklingum sem hafa skarað fram úr vegna starfa sinna í þágu blindra og sjónskertra.

Starfsfólk Miðstöðvarinnar þakkar Huld kærlega fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum og allar góðu stundirnar og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.