Frá vöggu til grafar – grein í Morgunblaðinu

Fimmtudaginn 28. desember síðastliðinn birtist í Morgunblaðinu greinin „Frá vöggu til grafar“ eftir Margréti Maríu Sigurðardóttur forstjóra Miðstöðvarinnar. Greinin birtist nú í heild sinni hér fyrir neðan:

Hér er mynd af greininni eins og hún birtist í Morgunblaðinu

Frá vöggu til grafar

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, í daglegu tali kölluð Miðstöðin, er opinber stofnun sem heyrir undir velferðarráðuneytið. Markmið starfseminnar er að auka möguleika ofangreindra til virkni og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra, með áherslu á stuðning til náms, sjálfstæðs heimilishalds, virkra tómstunda og atvinnuþátttöku. Miðstöðin sinnir ráðgjöf, hæfingu og endurhæfingu, auk þess að afla og miðla þekkingu á aðstæðum notenda í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum.

Miðstöðin er gjaldfrjáls stofnun. Til að fá þjónustu hjá Miðstöðinni þarf sjónin að vera minni en 30% á betra auga og innan við 20% sjónsvið. Þjónustan er einstaklingsmiðuð og er oft og tíðum veitt í nærumhverfi viðkomandi. Alltaf er reynt að veita ráðgjöf á heimavelli notenda, ráðgjöf er veitt út í skólana, inn á stofnanir, á vinnustaði og inn á heimili fólks auk þess sem notendur koma í húsakynni stofnunarinnar. 

Lögð er áhersla á að ráðgjafar hafi reglulega samband ef blind eða sjónskert börn eiga í hlut til að fylgja eftir hvernig gengur. Þar sem börn og ungmenni í skólakerfinu eiga í hlut er viðamikil starfsemi sem felst í tölvuráðgjöf, að nýta tölvutækni, snjalltæki og síma til náms. Sjónskertir nemendur fá í auknum mæli rafrænt efni sem þeir geta stækkað í sínum tæknibúnaði. Við miðstöðina er starfsrækt framleiðsludeild sem aðlagar námsefni og annan bókakost fyrir blinda og sjónskerta. Margir sjónskertir nemendur fá stækkað námsefni útprentað en með mikilli þróun í tölvutækni er efni gert rafrænt í auknum mæli. 

Á Miðstöðinni eru ekki biðlistar og leitast er við að veita bestu mögulegu þjónustu fyrir þá sem til hennar leita. Miðstöðin úthlutar hjálpartækjum sem auðvelda blindum og sjónskertum að takast á við athafnir daglegs lífs. Dæmi um hjálpartæki sem Miðstöðin úthlutar eru stækkunargler, stækkunarbúnaður tengdur skjá og tölvu, punktaletursskjáir, hvítir stafir og talgervlar.

Starfsmenn Miðstöðvarinnar meta þörf fyrir hjálpartæki að höfðu samráði við notendur. Úthlutun á hjálpartæki fylgir ávallt viðeigandi kennsla, þjálfun og eftirfylgd. Á miðstöðinni er þjónusta frá „vöggu til grafar“. Stór hluti starfseminnar snýst um að veita börnum, foreldrum þeirra og fjölskyldum ráðgjöf, fylgja þeim eftir í skólakerfinu og meta aðstæður þeirra. Kennsla og þjálfun í umferli skipar mikinn sess í starfsemi Miðstöðvarinnar. Einnig er áhersla lögð á að mæta fólki sem missir sjón og hjálpa því að aðlagast breyttum aðstæðum, á heimavelli, í vinnu og tómstundum. Miðstöðin hefur jafnframt staðið að þjálfun og úthlutun leiðsöguhunda sem gefist hefur mjög vel þeim sem geta nýtt sér þannig aðstoð. 

Miðstöðin vinnur að stöðugum umbótum og leitar tækifæra til framfara og nýjunga í samvinnu við einstaklinga og fagaðila. Með það í huga hefur verið lögð áhersla á að taka þátt í Evrópuverkefnum sem eru framsækin og áhugaverð með tilliti til nýjunga fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga. Á þann hátt leitast starfsmenn við að kynna sér það sem nýtt er í rannsóknum, vinnuaðferðum og tækni fyrir blinda og sjónskerta. Á þessum vettvangi er mikið að gerast í tengslum við nýja tækni og framþróun. 

Miðstöðin leggur áherslu á að samvinna við notendur sé í fyrirrúmi og að viðhorf þeirra og óskir séu virtar. Framúrskarandi þjónusta með þarfir notenda að leiðarljósi er kjarninn í starfseminni. Með það að leiðarljósi er leitast við að vera í sem bestu samstarfi við notendur þjónustunnar og fá reglulega upplýsingar frá notendum um það hvernig starfsemin reynist.  

Undirrituð tók við sem forstjóri Miðstöðvarinnar í október á þessu ári. Óhætt er að fullyrða að sjaldgæft er að ríkisstofnun sé með hugtakið þjónusta sem grunnheiti og er undirrituð mjög stolt af því að vinna hjá jafn framsækinni stofnun sem er með höfuðáherslu á að þjónusta þann hóp sem hún vinnur fyrir. Ég vil nota tækifærið og óska notendum, aðstandendum þeirra, starfsfólki stofnunarinnar svo og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.