Þann 20. febrúar síðastliðinn skrifuðu forstjórar Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar, Hljóðbókasafnsins og Menntamálastofnunnar undir bréf til félagsmála-, utanríkis-  og mennta- og menningarmálaráðherra þar sem óskað er eftir að íslensk stjórnvöld undirriti og fullgildi Marrakesh-sáttmálann um um aðgengi blindra, sjónskertra og prentleturshamlaðra að höfundarréttarvörðu efni. Sáttmálinn setur skýrar reglur um meðferð höfundarréttarmála og gerir kleift að skiptast á efni milli landa. Bréfið er svohljóðandi:

Félagsmálaráðherra
Mennta- og menningarmálaráðherra
Utanríkisráðherra

Reykjavík 20. febrúar 2019

Efni: Fullgilding Marrakesh sáttmálans á Íslandi.

Við undirrituð hvetjum íslensk stjórnvöld til að undirrita og fullgilda Marrakesh sáttmálann um aðgengi blindra, sjónskertra og prentleturshamlaðra að höfundarréttarvörðu efni. Sáttmálinn setur skýrar reglur um meðferð höfundarréttarmála og gerir kleift að skiptast á efni milli landa. Hann er því afar mikilvægur til að bæta aðgengi blindra, sjónskerta og annarra prentleturshamlaðra að les- og prentefni. Um 75 þjóðir hafa fullgilt Marrakesh sáttmálann, þar á meðal öll Evrópusambandslöndin.
Hljóðbókasafn, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð og Menntamálastofnun sinna útgáfu og stuðla að jöfnu aðgengi að les- og prentefni fyrir ofangreinda hópa. Í störfum þessara stofnana eru höfundarréttarákvæði oft hindrun þegar verið er að gefa út og aðlaga efni. Það væri því mikilvægt framfaraskref að íslenska ríkið undirritaði og fullgilti Marrakesh sáttmálann og auðveldaði stofnununum þar með að rækja lögbundið hlutverk sitt.
Við forstöðumenn ofangreindra stofnana förum hér með fram á að íslensk stjórnvöld fullgildi sáttmálann og erum við reiðubúin að leggja þeirri vinnu lið ef óskað er.

Virðingarfyllst

Arnór Guðmundsson f.h. Menntamálastofnunar

Einar Hrafnsson f.h. Hljóðbókasafnsins

Margrét María Sigurðardóttir f.h. Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Lesa meira um Marrakesh-sáttmálann (pdf-skjal)

Einar Hrafnsson frá Hljóðbókasafninu, Arnór Guðmundsson frá Menntamálastofnun og Margrét María Sigurðardóttir frá Miðstöðinni við undirritun bréfsins