Í apríl síðastliðnum stóð Lionshreyfingin fyrir landsöfnuninni „Rauða fjöðrin“. Safnað var fyrir augnbotnamyndavélum (OCT) fyrir Þjónustu- og þekkingarmiðstöðina og Innkirtladeild Landspítala Háskólasjúkrahúss.

OCT (optical coherence tomography) er tæki til myndgreiningar á augnbotnum, sjónhimnu og sjóntaugum. Það mun nýtast við greiningar og eftirlit á augnsjúkdómum, sem og við fræðslu fyrir notendur Miðstöðvarinnar. Myndrannsóknin tekur til yfirborðs augans ásamt því að sýna dýpri lög þess og er eins konar sneiðmyndataka af sjónhimnu og sjóntaug og veitir því mun ítarlegri upplýsingar en hefðbundin augnbotnamyndataka.

OCT er nauðsynlegt við eftirlit á t.d. hrörnun í augnbotnum, sem er algengasti augnsjúkdómur meðal eldra fólks, en yfir 70% af notendum Miðstöðvar eru 70 ára og eldri. Tækið nýtist einnig við eftirlit með öðrum hrörnunarsjúkdómum í augnbotnum, eins og til dæmis RP, sem er algengasta ástæða sjónmissis hjá fólki á vinnualdri.  Jafnframt mun tækið nýtast Miðstöðinni við flókna mátun á sérhæfðum linsum og fleira.

Fimmtudaginn 20. júní  voru vélarnar afhentar með formlegum hætti í Lionsheimilinu, þegar Björg Bára Halldórsdóttir, fjölumdæmisstjóri, færði Rafni Benediktssyni, yfirlækni Innkirtladeildar Landspítalans og Margréti Maríu Sigurðardóttur, forstjóra Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar gjafabréf.

Miðstöðin þakkar Lionshreyfingunni kærlega fyrir þessa höfðinglegu gjöf sem mun nýtast notendum og starfsfólki Miðstöðvarinnar vel.