Einkasýning Gerðar Guðmundsdóttur, „Skynjun – Má snerta“ verður í Listasal Mosfellsbæjar, Kjarni, Þverholt 2.  Sýningin opnar föstudaginn 16. ágúst kl. 16:00 – 18:00. Sýningin stendur til 13. september. Opið kl. 12:00 – 18:00 virka daga og kl. 12:00 – 16:00 á laugardögum.

Kjarni sýningarinnar er skynjun. Hér er gengið þvert á hefðbundnar sýningaraðferðir, því öll verkin má snerta.
Á meðan verkin eru ætluð öllum gestum, er sérstaklega hugsað til blindra og sjónskertra. Með það fyrir augum er leikið með ólíkar áferðir, andstæða liti og snertingu. 
Öll verkin með einni undantekningu eru þvívíddarverk, hengd á veggi, dinglandi, fljótandi, svífandi, leikandi, iðandi, flæðandi, skríðandi út í rýmið og veltandi út á gólf. Með því að ganga í kringum og meðfram verkunum finna gestir
fyrir hughrifum við snertingu ólíkra áferða. Hvert verk segir sína sögu og leiðir gesti áfram í gegnum áþreifanlegan söguþráð: skynjunin er ævintýrið.

Um listamanninn:
Gerður Guðmundsdóttir lauk prófi í Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá textíldeildinni. Hún hefur unnið sjálfstætt að myndlist síðan og sýnt afraksturinn á Íslandi, í Danmörku, Finnlandi, Bandaríkjunum, Frakklandi, Tyrklandi, Þýskalandi og Kóreu. Hún hefur búið í Englandi, Canada, Þýskalandi, Frakklandi, Spáni og Tyrklandi og sótt innblástur í handverk þessara landa. Tyrkneskar slæður og blúndur, búning nautabanans á Spáni og jafnvel útskurð á íslenskri hillufjöl. Hún fær oft hugmyndir fyrir verk sín  af upplifun sinni af náttúrunni. Aðalefniviður hennar hefur verið íslenska ullin, sem hún þæfir, þrykkir form á voðina og saumar út í.