Námskeið fyrir kennara sjónskertra nemenda

Miðstöðin stóð fyrir námskeiði þann 21. ágúst síðastliðinn ætlað kennurum sjónskertra nemenda í grunnskólum landsins

Námskeiðið tók á ýmsum þáttum sem einkennir skólastarfið, undirbúning og kennslu hjá kennurum sjónskertra nemenda ásamt reynslusögum frá kennurum sjónskertra nemenda sem hafa leitað lausna í kennslu og nýtt sér tækninýjungar er snýr að rafrænni skólastofu s.s. með Google classroom. Þá fengu þátttakendur námskeiðsins einnig að spreyta sig í vinnuhópum í lokin.

Helstu atriði sem farið var yfir á námskeiðinu voru:

– Hlutverk Miðstöðvarinnar

– Hvað það þýðir að vera sjónskertur

– Heilatengd sjónskerðing og úrvinnsluvandi

– Kynning á hjálpartækjum og hjálpargögnum

– Aðlögun á námsefni

– Aðgengi að námsefni með áherslu á rafrænt efni, framboð og lausnir

Við á Miðstöðinni höfum ákveðið að bjóða upp á þetta námskeið árlega fyrir kennara, og þá um miðjan ágúst, en með því móti viljum við skapa vettvang til þekkingaröflunar um sjónskerðingu m.t.t. náms í grunnskólum landsins.

Námskeiðið vakti lukku, bæði þátttakenda sem og starfsfólk Miðstöðvarinnar.

Hugmyndin er að bjóða upp á svipað námskeið fyrir kennara blindra nemenda einnig á næsta ári í upphafi haustsins.

Grettistak í punktaletursmálum

Síðastliðið vor ákvað Miðstöðin að leggja aukna áherslu á punktaletur og framtíðarsýn þess. Með örum tækninýjungum á punktaletrið undir högg að sækja og því mikilvægt að halda því á lofti með innleiðingu og markvissri kennslu. Miðstöðin hefur sett saman rýnihóp og er afrakstur þess hóps nýtt kennsluefni byggt á fyrri aðferðum með það fyrir augum að auðvelda punktaletursnámið og gera það eftirsóknarvert.

Þá er ánægjulegt frá því að segja að nokkrir notendur hafa hafið punktaleturskennslu nýlega og enn aðrir bíða þess að hefja námið á haustönn.