Vala Jóna Garðarsdóttir og Rannveig Traustadóttir tóku þátt í námskeiði hjá IBOS í Danmörku dagana 17. og 18. september 2019.
Námskeiðið bar yfirskriftina “Aktiv ekkolokalisering som metode I O&M- undervisningen.” eða Endurkast hljóðs í umferliskennslu.
Markmið námskeiðsins var að kynna kennsluaðferðir og verkfæri fyrir umferliskennara. Áherslan var á endurkast hljóðs í tengslum við umhverfisvitund og áttun í umferliskennslu.
Námskeiðið samanstóð af fræðilegri umfjöllun og verklegum æfingum í tengslum við virka hlustun og endurkast hljóðs.
Á námskeiðinu var tekið mið af kennsluaðferðum sem Daniel Kish hefur notað með góðum árangri. Hann hefur miðlað af þekkingu sinni og reynslu um endurkast hljóðs í umferli með áherslu á sjálfstæði og frumkvæði einstaklingsins í umferli. Á ensku talar hann um “Freedom of movement” Hann útskýrir endurkast hljóðs á eftirfarandi hátt:
„Tækni sem stuðlar að markvissri notkun skynfæranna, einkum heyrnarinnar, við að skynja og safna nákvæmum upplýsingum um eðli og uppbyggingu umhverfisins. Þetta er gert til að greina hluti sem eru til staðar í tilteknu umhverfi og sem geta veitt einstaklingnum upplýsingar til að komast leiðar sinnar. Tæknin byggir á því að einstaklingur notar hljóð sem hann eða umhverfið gefur frá sér og endurkastast aftur frá hlutnum sem hljóðið hittir á. Það er síðan hlutverk heilastöðva að túlka það sem eyrað heyrir.“
Umferliskennarar Miðstöðvarinnar vænta þess að geta í auknu mæli tekið mið af þessum aðferðum í umferliskennslu.