iExpress myself II er Erasmus+ verkefni Evrópusambandsins. Verkefnið spannar 30 mánuði, frá september 2018 til febrúar 2021. Þátttakendur eru frá Hollandi, Íslandi, Spáni og Ungverjalandi og stjórnar Royal Dutch Visio í Hollandi verkefninu og eru ábyrgðaraðilar þess. Markmið verkefnins er að miðla þekkingu, þróun og nýjungum í notkun hjálpartækja (appa) fyrir MDVI-notendur, þ.e. fjölfatlaða einstaklinga með sjónskerðingu og eða blindu. Markhópurinn er fagfólk í tölvu- og tæknimálum og kennarar sem vinna með MDVI-notendum.
Verkefnið gengur annars vegar út á að búa til forrit sem hjálpar fagfólki sem vinnur með einstaklingum með MDVI og hins vegar að nota skimunarlista sem búinn var til í iExpress I verkefninu. Ábyrgðaraðili forritsins er ASPAYM Valladolid á Spáni.
Niðurstöður iExpress I verkefnisins voru m.a. að búa til handbók með leiðbeiningum fyrir skimunarlista (tölvunotkun, spjaldtölvu) fyrir fagfólk og kennara sem vinna með MDVI-nemendum.
Hluti af verkefninu er að halda námskeið sem kallast „Train the trainers“. Námskeiðið verður haldið fyrir sérkennara og leiðbeinendur sem vinna með börnum með MDVI. Tveir ráðgjafar munu sinna því en það eru tölvuráðgjafi og sérkennsluráðgjafi sem koma frá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Niðurstöðurnar verða nýttar til að gera einstaklingsáætlun í upplýsingatækni fyrir fagfólk og kennara. Þær yrðu hluti af verkfærakistu sem hægt væri að nýta til að taka stöðuna og skoða tölvu- og tæknifærni nemenda með MDVI og meta framfarir þeirra í þeim.