Fimmtudaginn 24. september komu leiðsöguhundarnir Sanza og Nova úr tveggja vikna einangrun og bættust þar með í stækkandi hóp leiðsöguhunda á Íslandi. Leiðsöguhundar hér á landi eru því orðnir níu sem eru afar ánægjulegt og skref í átt að því að svara þeirri eftirspurn sem skapast hefur eftir leiðsöguhundum undanfarið ár. 

Leiðsöguhundar eru öflugt hjálpartæki fyrir blint og mikið sjónskert fólk og veita þeir notendum aukið frelsi og öryggi. Notandi leiðsöguhunds öðlast frelsi til þess að komast um í umhverfi sínu, jafnt innandyra sem utan. Hundarnir leiða notendur sína fram hjá hindrunum sem á vegi þeirra verða og hjálpa notendum sínum að finna ýmis kennileiti s.s. afgreiðsluborð, bekki og stiga.

Leiðsöguhundar eru skilgreindir sem hjálpartæki samkvæmt reglugerð um úthlutanir hjálpartækja fyrir blinda og sjónskerta. Miðstöðin hefur það hlutverk að úthluta leiðsöguhundum samkvæmt ákveðnu úthlutunarferli.

Þjálfun leiðsöguhunda er afar sérhæfð en tíkurnar Sanza og Nova komu fullþjálfaðar frá Svíþjóð og fóru nánast strax til framtíðarnotenda sinna, sem hafa notað tímann til að kynnast hundunum og þjálfa sig í skipunum og notkun hundanna undir leiðsögn leiðsöguhundaþjálfara Miðstöðvarinnar. Þessi samþjálfun hunda og notenda er ávallt einstaklingsmiðuð og miðar að því að notandi sé sem best í stakk búinn til að nota leiðsöguhund sem hjálpartæki í sínu daglega lífi.  Næstu dagar og vikur verða því krefjandi en jafnframt skemmtilegt verkefni bæði fyrir hunda og menn. 

Við hvetjum alla áhugasama sem vilja kynna sér hlutverk og notagildi leiðsöguhunda  til að hafa samband við leiðsöguhundaþjálfara Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar. Hægt er að hafa samband með tölvupósti  bjork.arnardottir@midstod.is eða í síma 545-5800.