Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur skipað Elfu Svanhildi Hermannsdóttur í embætti forstjóra Miðstöðvarinnar. Elfa er skipuð til fimm ára og tekur til starfa 1. mars næstkomandi.
Elfa er öllum hnútum kunnug innan Miðstöðvarinnar. Hún starfaði sem kennsluráðgjafi hjá Blindrafélaginu frá 2007-2009 og starfaði sem þjónustustjóri hjá Miðstöðinni en það fól meðal annars í sér skipulagningu og umsjón á þjónustu á landsvísu ásamt utanumhaldi um námskeið og fræðslu á vegum Miðstöðvarinnar.
Elfa er með B.ed. í grunnskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands og PGDip í stjórnun menntastofnana frá Háskóla Íslands. Þá lauk hún PGDip í sérkennslufræðum blindra og sjónskertra nemenda frá University of Birmingham. Elfa kláraði MPM meistaranám í verkefnastjórnun árið 2011 frá Háskóla Íslands þar sem lokaverkefnið fjallaði um sameiningu eða samvinnu stofnana fyrir fólk með skerðingar.
Elfa var forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða árin 2016-2018 þar sem hún stýrði daglegum rekstri og áætlanagerð. Hún gerðist svo framkvæmdastjóri Infomentor árið 2018.
Við bjóðum Elfu velkomna aftur til starfa á Miðstöðinni.