Ferðasamningur Blindrafélagsins og Kópavogsbæjar
Þann 14. mars undirrituðu Blindrafélagið og Kópavogsbær þjónustusamning um að Blindrafélagið taki að sér að reka ferðaþjónustu fyrir íbúa Kópavogsbæjar sem eru greindir lögblindir af Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og geta ekki nýtt sér almenningssamgöngur vegna fötlunar sinnar.
Tilgangurinn með samningnum er að gera lögblindum Kópavogsbúum kleift að leggja stund á nám, sækja vinnu, heilbrigðisþjónustu, hæfingu og endurhæfingu og taka þátt í tómstundum. Nýir umsækjendur skulu sækja um aðgang að ferðaþjónustu Blindrafélagsins til velferðarsviðs Kópavogsbæjar.
Þetta er mikill sigur fyrir Blindrafélagið sem hefur áratugum saman barist fyrir því að ferðasamningur sem þessi verði gerður við Kópavogsbæ en slíkur samningur hefur til að mynda verið til staðar í Reykjavík í meira en 20 ár.
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Blindrafélagsins blind.is en einnig verður haldin kynningarfundur á samningnum í dag mánudaginn 26. mars kl. 17:00 í húsi Blindrafélagsins Hamrahlíð 17.